148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[17:11]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni fyrir ræðuna. Ég veitti því athygli í ræðu hans áðan að hann sagði frá því að í tilteknum ungmennahópum, ungmennaráðum einhverrar gerðar, vantaði alveg fulltrúa þeirra unglinga sem minna mega sín í samfélaginu.

Það er gömul saga og ný að það er sama hvar í aldri það er, þeir sem eiga erfitt um vik, hvort sem er vegna líkamlegrar fötlunar eða af hvaða ástæðu sem það er, finna sig í þeirri stöðu að vera út undan, svo maður orði það eins og það er. Ég hefði áhuga á að heyra sjónarmið þingmannsins gagnvart minnihlutahópum sem eiga erfitt um vik, hvort sem það eru öryrkjar vegna hreyfihömlunar eða annarra kvilla. Hefur hann áhyggjur af því að þeir yrðu enn meira utan gátta með þessum reglubreytingum og þá jafnvel kannski sérstaklega vegna þess að með þessu er verið að færa mjög alvarlega ábyrgð, ákvarðanatöku og réttindi yfir til þess hóps sem um ræðir? Mig langar til að heyra sjónarmið hv. þingmanns hvað þetta varðar.