148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[17:18]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég get ekki annað en komið hér upp og sagt hver skoðun mín og sýn er á þetta frumvarp ekki síst vegna þess að ég er til að mynda algjörlega ósammála því sem kom fram í máli hv. þingmanns sem talaði hér á undan mér og hjá mörgum af mínum ágætu félögum í Sjálfstæðisflokknum. Mér finnst nefnilega alveg ótrúlega spennandi hugmynd að 16 ára ungmenni fái að kjósa. Ég tel að mörgu leyti að það sé í góðu lagi að einstaklingar fái mismunandi réttindi á mismunandi aldursskeiði og er þar af leiðandi ekki sammála því að það þurfi að festa allt í eina tölu, hvort sem hún væri 16, 17, 18, 19 eða 20 ára. Ég held það geti bara verið góð leið í ákveðnu þroskaferli, það er mín skoðun. Ég treysti ungu fólki fullkomlega til að taka þátt í sveitarstjórnarkosningum.

Ég hef sjálf alloft verið í framboði til sveitarstjórnar og átt samtöl við bæði ungt fólk og fólk á miðjum aldri og eldra fólk, það er eiginlega skemmtilegast að tala við ungt fólk um þessi mál og þau brenna fyrir þeim. Á sveitarstjórnarstiginu er að sjálfsögðu svo mikið af þjónustu sem veitt er beint til ungs fólks og þau þekkja hana vel. Þau hafa gengið í gegnum grunnskólann, verandi í íþrótta- og tómstundastarfi, hafa notað sér félagsmiðstöðvarnar og annað þess háttar og þau hafa skoðanir og sjónarmið sem þau brenna fyrir. Mér finnst svo jákvætt og spennandi að við hlustum á þetta. Mér finnst líka alveg sjálfsagt að þau megi taka þátt í að kjósa.

Ég vil líka segja, vegna þess að ég er talsmaður barna og það hefur aðeins komið til tals hérna, að við megum alls ekki stilla því fallega hlutverki upp einhvern veginn með og á móti og stilla fólki upp í tengslum við það. Fólk hefur sínar skoðanir á þessu máli og það eru bara mjög breið sjónarmið út um allt samfélagið hvað þetta varðar. Ég er t.d. á þeirri skoðun að það sé mjög gott að ala börn upp í samfélagsrýni og að börn eigi að hafa skoðun á samfélagi sínu, hlusta á fréttirnar og hafa tækifæri til að ræða hlutina og hafa skoðanir í allar áttir og það sé hluti af þroskaferlinu þeirra.

Að þessu sögðu langar mig að segja það að við erum hér í 3. umr. um þetta þingmál. Það var lagt fram í desember. Það fór í 1. umr. nokkrum dögum seinna og þá tóku aðeins sex þingmenn til máls. Ég veit ekki hvernig stendur á því að ég tók ekki til máls, ég hef örugglega ekki verið í þingsalnum akkúrat á þeirri stundu. Það fór í 2. umr. fyrir nokkrum dögum síðan. Þá var rætt um málið í eina og hálfa klukkustund. Ég hafði þá í hyggju að koma upp og ræða málið. Ég var stödd annars staðar í öðrum störfum og sá að það var fullt af fólki á mælendaskrá, en ég vissi ekki fyrr en það var allt í einu búið að slíta fundi og 2. umr. var bara lokið. Fólk tók sig út af mælendaskrá og svo var 2. umr. búin og áfram haldið með málið.

Við fórum svo í atkvæðagreiðslu eftir 2. umr. í gær og þá fór eiginlega jafn langur tími í atkvæðaskýringar, því það hafa auðvitað komið fram fullt af sjónarmiðum sem höfðu ekki komið fram í 2. umr., sem er kannski eðlilega ferlið og við þekkjum mjög vel og er væntanlega ástæðan fyrir því að lagafrumvarp fer í þrjár umræður. Það er til að vanda til verka og fá öll sjónarmið fram.

Það voru sendar út umsagnarbeiðnir til 323 aðila um þetta frumvarp og 24 umsögnum var skilað. Þær eru í allar áttir. Sumir eru hlynntir málinu, aðrir ekki. Þetta getur verið góð hugmynd, en það þarf að skoða málið betur. Það þarf að auka fræðsluna. Það þarf að huga að alls konar þáttum.

Það er ekki sanngjarnt annað en að geta þess að þetta er auðvitað ekki í fyrsta skipti sem þetta mál kemur fram. Það var lagt fram á 146. þingi, reyndar líka á 147. þingi, en við vitum öll hvernig fór um það þing, það var aldrei hægt að mæla fyrir málinu þá. En hæstv. núverandi forsætisráðherra Katrín Jakobsdóttir mælti fyrir málinu á 146. þingi. Ég tók þar þátt í 1. umr. Ég fagnaði frumvarpinu. Ég sagði að mér fyndist þetta verulega áhugaverð hugmynd og við ættum að skoða þetta. Ég sagðist hlakka til að sjá umsagnir sem kæmu fram um þetta mál, en ég sagði líka þá, og ætla að taka fram að þetta var 2. maí 2017, að það væri mjög mikilvægt ef þetta mál ætti að ná fram að ganga fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar að það færi hratt og örugglega í gegn. Þetta var sagt í maí, ef við hefðum tekið umræðuna í maí 2017.

Nú erum við stödd undir miðjum mars, man nú ekki einu sinni hvaða dagur er í dag, (Gripið fram í.) næstum því í lok mars og það eru um tveir mánuðir til sveitarstjórnarkosninga. Hér hafa komið fram í umræðunni alls konar sjónarmið sem vekja upp spurningar hjá mér. Erum við búin að hugsa út í alla þætti þessa máls?

Eins og ég sagði áðan þá hef ég, virðulegi forseti, setið í sveitarstjórnum og horfi mjög til þess sem Samband íslenskra sveitarfélaga segir og sveitarstjórnir segja. Mig langar, með leyfi virðulegs forseta, að fá að lesa upp ályktun sem Samband íslenskra sveitarfélaga hefur sent okkur, en þar segir:

„Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga tekur ekki efnislega afstöðu til þeirra breytinga sem lagðar eru til í frumvarpinu en telur varhugavert að samþykkja breytingar á lögum um kosningar til sveitarstjórna nú þegar rúmlega tveir mánuðir eru til kosninga. Stjórnin bendir á leiðbeiningar frá Evrópuráðinu þar sem fram kemur að stöðugleiki er mikilvægur varðandi kosningalöggjöf og telur að stjórnvöld og Alþingi eigi að starfa út frá þeirri meginreglu að ekki séu gerðar meiri háttar breytingar á kosningalögum þegar minna en eitt ár er til kosninga.“

Ég verð að segja það, hæstv. forseti, hafandi starfað í sveitarstjórn lengi, að það er mjög oft rætt að í þessum sal fái fólk oft góðar hugmyndir og greiði atkvæði með þeim án þess að átta sig algerlega á því hvernig eigi að útfæra málið. Nú skulum við átta okkur á því að kosningar til sveitarstjórna eru á ábyrgð sveitarfélaganna. Þau bera ábyrgð á framkvæmd þessarar kosningar. Þau segja hérna og beina því til löggjafans: Það er allt of hratt farið.

Ég sagði í atkvæðaskýringu í gær að mér fyndist þetta mál mjög erfitt því alveg eins og ég hef rakið hér er ég í grunninn hlynnt þessari hugmynd, en ég ætla ekki að gefa mér það að ég geti séð fyrir alla hluti sem mögulega kunna að koma upp í þessu máli. Áttum okkur líka á því að hér er um þingmannafrumvarp að ræða. Stjórnarfrumvörp sem oft fá framgang í svona tímaröð eins og ég var að ræða eru samin í ráðuneytum af sérfræðingum. Þau hafa þegar farið í samráðsferli áður en þau koma hingað inn á þingið. Svo fara þau í gegnum þrjár umræður hér.

Mér líður þannig að þessi hugmynd þurfi að þroskast betur og þurfi að fá meira samtal, bæði úti í samfélaginu og ekki síst hjá sérfræðingum sem þekkja til allra anga kosningalöggjafarinnar og allra þeirra mála sem mögulega gætu komið upp. Hér hafa menn velt fyrir sér hver eigi að kæra inn á kjörskrá ef slíkt kemur upp. Ég veit það ekki, það getur verið fullt af einhverjum svona spurningum sem ég kann ekki svör við og hef örugglega ekki ímyndunarafl í að setja fram þær spurningar sem upp kynnu að koma.

Mig langar líka aðeins í ræðu minni að koma inn á fræðslugildið. Ég sagði í atkvæðaskýringum í gær að það væri ekki nóg með að sveitarfélögin bæru ábyrgð á framkvæmd kosninganna, heldur bæru þau líka ábyrgð á fræðsluskyldunni. Hvernig ætlum við að framkvæma þetta? Það er rétt að hæstv. menntamálaráðherra kom hér upp og taldi að það myndi ekki standa á menntamálaráðuneytinu hvað það varðaði. Ég hef samt verulegar efasemdir.

Þá get ég líka alveg sagt að í dag er auðvitað engin, ég ætlaði að segja engin raunveruleg fræðsla, virðulegur forseti, en kannski væri sanngjarnara að tala um að það er engin markviss fræðsla frá hinu opinbera um gildi lýðræðisins og um gildi kosninga. Grunnskólinn horfir til lýðræðis, en ekki hvað kosningar varðar og annað þess háttar. Við rekum fyrir opinbert fé umferðarskóla ungra vegfarenda. Ungu krakkarnir okkar fá bækling á mánaðarfresti á einhverju árabili þar sem þau læra um umferðarreglurnar. Hvað með lýðræðisskólann? Hvað með að við tökum upp umræðu um gildi lýðræðisins og gildi samfélagslegrar umræðu og hvað það þýðir að taka þátt í kosningum? Af hverju horfum við fram á minnkandi kjörsókn og slaka kjörsókn hjá ungu fólki?

Mig langar mjög gjarnan að ræða þessi mál og hvað við getum gert betur í þeim efnum. Það er alveg rétt eins og bent hefur verið á hér að það má ekki senda markpóst á fólk sem er undir 18 ára aldri. Það er sent á foreldra. Ég fæ nú aldeilis inn svoleiðis póst, ég á fermingarbarn, ég fæ mikið af svoleiðis pósti sem stílaður er á mig og nafn fermingarbarnsins er undir.

Ég held að til séu lausnir á þessum málum. Mér finnst mjög áhugavert að horfa til þess að ungt fólk verði virkari þátttakendur í samfélaginu og fái þar af leiðandi líka að kjósa. En ég velti fyrir mér, virðulegi forseti, vöndum við okkur nægilega mikið? Við ræðum það gjarnan í þessum sal því að við eigum það til að þurfa að leiðrétta frumvörp og leiðrétta hluti sem hafa runnið hér í gegn hjá okkur, jafnvel þó að margir sérfræðingar hafi farið yfir það.

Hér erum við að tala um algjöran grundvöll að lýðræðislegu samfélagi, kosningar. Höfum við svarað öllum þeim mikilvægu spurningum sem við þurfum að svara þegar við tökum svona ákvörðun? Hvað ef eitthvað kemur upp á, kosningar verða kærðar og ég veit ekki hvað getur gerst í kjölfarið? Höfum við velt öllu þessu fyrir okkur og höfum við svör við þessu? Erum við að vanda okkur nægjanlega?