148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[17:30]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér hafa verið í dag á þingpöllum krakkar, fullt af krökkum, sem hafa komið hingað til að kynna sér störf þingsins. Það sem þau hafa fengið að sjá er málþóf. Þau hafa fengið að sjá hvernig minni hluti hefur tekið sér það vald að stöðva framgang máls sem mjög líklegt er að meiri hluti sé fyrir á Alþingi. Þau hafa fengið að sjá hóp af körlum sem tala um að þau hafi ekki nægan þroska til að kjósa. Ég vil taka það fram að ræða hv. þingmanns hér á undan skar sig úr því sem ég hef heyrt hér í dag, var málefnaleg og innihaldsrík. Ég get tekið undir margt af því sem þar kom fram, sérstaklega nauðsyn þess að styrkja lýðræðisvitund ungs fólks og þekkingu ungs fólks á lýðræðinu og þjóðfélagsmálum almennt. Ég er hins vegar ósammála því að þetta frumvarp sé ekki tilbúið og ég tel ekki eftir neinu að bíða með að leiða fram vilja þingsins í þessu máli.