148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[17:38]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér leiðist málþóf. Ég er ekki búin að vera mjög lengi hér á þingi, en er ein af þessum pólitísku nördum, leyfi ég mér að segja, sem hef í gegnum tíðina fylgst með alþingisrásinni. Mér hefur sjaldan fundist að í málþófi komi eitthvað mikið og gagnlegt fram sem verði til þess fallið að leysa mál.

Ég get engan veginn tekið undir það að ég sé hér, með ræðu minni áðan, að taka þátt í málþófi. (Gripið fram í.) Nú er ég búin að fá andsvör og bæði andsvörin snúa með einhverjum hætti að málþófi. Þetta er fyrsta ræðan sem ég held um þetta mikilvæga mál. Ég tek undir það að skemmtilegar umræður urðu hér um atkvæðagreiðsluna í gær. Þar fékk ég örlítið tækifæri, eina eða tvær mínútur, til að gera grein fyrir afstöðu minni sem var á þá leið að ég myndi styðja breytingartillögu sem lyti að því að þetta mál tæki gildi síðar.