148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[17:46]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði í ræðu minn áðan tók ég einmitt þátt í 1. umr. um málið þegar það var lagt fram á 146. þingi og lýsti örugglega sambærilegum áhuga og hv. þingmaður. En þá sagði ég líka, og það var í maí 2017, að ef þessi hugmynd ætti að verða að veruleika væri mjög mikilvægt að málið næði framgangi á þinginu þá, ekki núna, í apríl 2018, þegar það eru 60 dagar í sveitarstjórnarkosningar.

Ég held að umræðan í gær um atkvæðagreiðsluna sýni hvað skoðanir eru gríðarlega skiptar í þessum sal. Það er eitt sem aðrir hv. þingmenn hafa bent á í ræðum sínum í dag, hvort það sé eðlilegt að við afgreiðum mál sem snúi að jafn miklum grundvallarréttindum og kosningarrétti í svo miklum ágreiningi.