148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[18:05]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Hann spyr mig hvað geti farið úrskeiðis. Ég taldi í ræðu minni áðan upp nokkur atriði. Ég talaði t.d. um að það þyrfti að upplýsa kjörstjórnirnar og kjörstjórana sem eru fjölmargir á mismunandi stöðum á mismunandi svæðum í heiminum. Það þarf að upplýsa þessa aðila um viðbrögð við ýmsum vandamálum sem upp geta komið. Það er ekkert einfalt mál.

Eins og ég sagði líka í ræðu minni treysti ég kjörstjórnum fullkomlega til að vinna sitt verk mjög fagmannlega og vel. Þetta eru stórkostlega vel mannaðar nefndir um allt land. Ég þekki það mætavel eins og hv. þingmaður kom inn á. Ég hef haft mikið og gott samstarf við þær og treysti þeim til að takast á við alls kyns vandamál. En það eru ekki bara kjörstjórnirnar, það eru langtum fleiri, það eru kjörstjórarnir, sýslumennirnir og starfsmenn þeirra, það eru sendiráðsmennirnir og kjörræðismennirnir. Það er vika í að utankjörfundaratkvæðagreiðslan hefjist. Mjög margir af þessum aðilum þurfa að fara að vinna strax eftir eina viku og það þarf að uppfræða þá. Ég hef áhyggjur af að upp komi hnökrar þegar verið er að taka afstöðu til hinna ýmsu úrlausnarefna sem upp gætu komið. Ég nefndi þau áðan og ætla ekkert að fara að endurtaka þau.