148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[18:09]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var ágæt ræða hjá hv. þingmanni þó að hann hafi ekki alltaf fengið frið til að svara vegna frammíkalla. Það er plagsiður sem við erum misjafnlega sek um hér. En látum það nú liggja á milli hluta.

Það er gott að það er sérfræðingur í salnum þegar kemur að framkvæmd kosninga. Það er hv. þingmaður sem var í tæp 20 ár formaður yfirkjörstjórnar, fyrst í Suðurlandskjördæmi og síðan í Suðurkjördæmi.

Ég held því að það sé skynsamlegt fyrir okkur sem hér sitjum að hlusta nú aðeins á mann sem telst sérfræðingur samkvæmt öllum mælikvörðum. En það virðist vera valkvætt í þessum sal hvenær hlusta á á sérfræðinga og hvenær ekki. Það virðist fara eftir einhverju öðru en huglægu mati. Einhver geðþótti ræður þar för.

En ég vil spyrja hv. þingmann vegna þess að ég er ekki alveg klár á hvort við séum samstiga. Ég hef marglýst því yfir í umræðum um þetta mál að ég telji rétt og skynsamlegt að lækka kosningaaldur, en ég sé ekki hvernig við ætlum að gera það öðruvísi en að við séum samkvæm sjálfum okkur og lækkum líka sjálfræðisaldurinn og gerum fólki kleift líka að vera kjörgengt í viðkomandi kosningum. Er þingmaðurinn sammála mér um að lækka kosningaaldurinn niður í (Forseti hringir.) 16 ár eða hefur hann einhver önnur aldursbil í huga? Er hann sammála mér um að við þurfum að tryggja, til að gæta samræmis og vera sjálfum okkur samkvæm, að sá sem hefur kosningarrétt sé líka sjálfráða?