148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[18:17]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Karli Gauta Hjaltasyni fyrir ræðuna. Hann kom áðan inn á það að hann skynjaði það sem svo að það væri ákall eftir þessari breytingu. Umræðan hér á fyrri stigum gæfi tilefni til þess að telja að það væri þörf á þessu. Eftir því sem liðið hefur á daginn og maður hefur fylgst með umræðunni í kringum okkur og þeim skilaboðum sem maður fær, fæ ég á tilfinninguna að það hafi verið eitthvert ofmat á eftirspurninni eftir þessum breytingum. Ég held að þetta liggi þannig núna að við eigum að fara í skoðun á kosningalöggjöfinni og heildarregluverkinu en við eigum bara að gera breytingar ef við teljum eitthvert vit í þeim. Við eigum ekki að gera þær til að bregðast við einhverri tilfinningu fyrir eftirspurn eftir lausninni. Hv. þm. Óli Björn kom inn á það fyrr í dag að það væri skoðanakönnun í gangi á héraðsfréttablaðinu Skessuhorni. Ég leit á hana rétt í þessu. Þar eru tæplega 500 manns búnir að kjósa og 89% telja enga ástæðu til að gera þetta. Spurning mín til hv. þm. Karls Gauta Hjaltasonar er: Telur hann að þetta sé skynsamlegt? Vill hann sjá þessa aldurslækkun verða? Eða telur hann að það eigi að fara í endurskoðun þar sem verður tekin sjálfstæð afstaða til þess hvort ástæða sé til breytinga?