148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[18:19]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég missti nú af því hvar þessi 89% komu fram, hvort það var á Bylgjunni eða hvar. (BergÓ: Skessuhorni.) Mér hefur nú fundist mjög margir fylgjandi þessari breytingu, alla vega í sölum Alþingis. En það getur verið að ég hafi ekki talið rétt. Ég er fylgjandi þessu, auðvitað má skoða alls konar útfærslur, 17 ára aldur eða eitthvað annað, en ég tel að það ætti að samræma þetta betur við önnur réttindi ungs fólks eins og hv. þm. Brynjar Níelsson hefur oft komið inn á. Ég er sammála honum í því. Auðvitað er ekki skynsamlegt að vera að taka einn hluta út úr menginu og færa hann til. Eins og ég var að segja áðan kalla ég eftir samræmdum lausnum í þessu máli eins og öðrum, eins og t.d. lögræðisaldurinn, að hann verði skoðaður í leiðinni og ýmis önnur réttindi. Ég kom inn á það í minni ræðu varðandi þá stöðu sem gæti komið upp ef viðkomandi mætir með föður sinn á kjörstað og hann er forráðamaður hans og biður um að faðirinn sé aðstoðarmaður sinn. Það getur vel verið raunhæft og eðlilegt og fyllilega í lagi en það er auðvitað svolítið afkáralegt ef hann á svo að aðstoða við kosninguna. Eins með afsal kosningarréttar og svo framvegis. Það geta komið upp alls konar sjónarmið þegar réttindin skarast svona mikið og heiftarlega eins og í þessu. Ég mæli með að við setjumst frekar niður síðar og reynum að finna samræmda lausn á þessum málum.