148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[18:21]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Karli Gauta Hjaltasyni fyrir andsvarið. Ég held nefnilega einmitt að það sé að formast hér einhver skoðun eða afstaða innan þingsalarins í dag, að það sé ástæða til að fara í heildarskoðun á þessum málum. Þó að hv. þm. Björn Leví Gunnarsson sé annarrar skoðunar verður hann að lifa með því að við séum ósammála um þetta. En það var gaman að hlusta á hv. þm. Karl Gauta Hjaltason hér áðan því það var talað af mikilli þekkingu og reynslu í þessum efnum. Ég held að hann hafi komið inn á kjarnaatriði í málinu sem er að hér er lagt til að börn fái kosningarrétt sem ekki njóta sjálfræðis. Hvaða sjálfstæðu vandamál hvað praktísku hliðina varðar, við höfum nú komið inn á einhver þeirra, geta hlotist af því að kjósendur njóta ekki sjálfræðis?