148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[18:24]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Ég er einn þeirra sem hafa lengi barist fyrir því að við tækjum til endurskoðunar kosningaaldurinn með það að markmiði að lækka hann. Ég hef talið eðlilegt að miða hann við 16 ár. Ég sat um liðna helgi glæsilegan landsfund okkar Sjálfstæðismanna. Þar kom fram tillaga um að lækka almennan kosningaaldur niður í 16 ár. Ég varð undir í þeirri atkvæðagreiðslu, það munaði ekki miklu, en við sem studdum tillöguna urðum að sætta okkur við niðurstöðuna. Það breytir ekki því að ég mun halda áfram baráttunni. Ég geri hins vegar þá kröfu að við vöndum til verka í þessum efnum eins og öðrum.

Við höfum smám saman, kannski of hægt, verið að færa aldurinn niður á við, veita fleirum þau sjálfsögðu réttindi að velja sér kjörna fulltrúa, hvort heldur er á Alþingi, í sveitarstjórnir eða kjósa um forseta Íslands. Þessum sjálfsögðu réttindum fylgja auðvitað önnur réttindi, svo sem eins og kjörgengi. Ég sé ekki að það sé hægt að skilja þetta að, ekki frekar en sjálfræði.

Í byrjun nóvember 1965 lagði Benedikt Gröndal, þá þingmaður Alþýðuflokksins, fram þingsályktunartillögu um að gerð skyldi athugun á því hvort ekki væri tímabært og æskilegt að taka upp 18 ára kosningaaldur á Íslandi. Athugun þessa átti að gera sjö manna nefnd sem yrði kosin af Alþingi. Í greinargerð með þingsályktunartillögunni sagði Benedikt, en hann varð síðar forsætisráðherra og formaður Alþýðuflokksins, að hann vildi með tillögunni annars vegar vekja athygli annarra flokka á stefnu Alþýðuflokksins sem rúmum tveimur árum áður hafði samþykkt á aukaþingi að berjast fyrir lækkun kosningaaldurs úr 21 í 18 og hins vegar að það væri einfalt að flytja frumvarp um breytingu á stjórnarskránni —vegna þess að það krafðist stjórnarskrárbreytinga þegar kemur að alþingiskosningum eins og hv. þm. Karl Gauti Hjaltason vék að hér áðan — en Benedikt var hins vegar r sannfærður um það færi best á því að breytingar af þessu tagi væru gerðar í sem mestri sátt og eftir umræðu í þingsal og þjóðfélaginu.

Í greinargerð sagði m.a., með leyfi herra forseta:

„Þar sem hinir flokkarnir hafa enn ekki látið opinberlega í ljós skoðun á málinu, þykir eðlilegra að fara fram á skipun nefndar til að fjalla um það og veita þannig svigrúm til athugunar og umræðu. Fari svo, að hugmyndin fái stuðning, er óþarft að láta samþykkt stjórnarskrárbreytingar af þessu tagi leiða til þingslita og kosninga, heldur rétt að afgreiða málið á síðasta þingi fyrir reglulegar kosningar.“

Benedikt Gröndal lagði áherslu á það að menn gerðu breytingar í eins mikilli sátt og hægt væri, að menn hefðu tíma til að ræða málið og móta sér skoðanir. Hann var sjálfur sannfærður um að það ætti að sýna ungu fólki, eins og hann sagði, fullkomið traust. Ég vitna aftur í greinargerð Benedikts Gröndals frá árinu 1965, með leyfi forseta:

„Þá fyrst mun reyna á þroska hennar“ — þ.e. ungu kynslóðarinnar — „og hann mun ekki bregðast í þessu efni, frekar en hjá hinum eldri.“

Benedikt vildi veita æskufólki sinn sess í þjóðfélaginu með fullri ábyrgð og fullkomnu trausti.

Kosningarréttur er órjúfanlegur hluti af lýðræðinu og allar breytingar á kosningalögum verður að undirbúa af kostgæfni og með góðum fyrirvara. Á þetta hef ég lagt áherslu í umræðu um fyrirliggjandi frumvarp. Það er órjúfanlegur hluti af kosningarrétti og er hornsteinn lýðræðisins að kosningar gangi eðlilega og hnökralaust fyrir sig. Þetta er sú krafa sem allir Íslendingar gera og um leið er eðlilegt og sanngjarnt að gera þá kröfu til okkar sem sitjum í þessum þingsal að við gerum ekkert sem stefni kosningum eða framkvæmd þeirra í hættu. Við verðum að vera alveg fullviss um að þær breytingar sem við gerum á kosningalögum hverju sinni séu þannig að hægt sé að framkvæma kosningar hnökralaust eins og við gerum kröfu til í lýðræðissamfélagi. Sé þar vafi er skylda okkar að vekja athygli á þeim vafa, draga hann fram og reyna að hafa áhrif á þá sem ætla að halda áfram og láta skeika að sköpuðu.

Ég minni á að þeir sem eiga að framkvæma kosningarnar, sem eru sveitarfélögin sjálf, hafa beðið okkur að ganga hægt um gleðinnar dyr í þessum efnum, herra forseti.

Í morgun samþykkti stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga bókun um breytingar þær sem við erum að fjalla um. Bókunin var send formanni og varaformanni stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, auk þess sem forseti Alþingis fékk afrit. Á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga kemur fram að þess hafi verið farið á leit að þeirri bókun yrði komið á framfæri við alla alþingismenn áður en gengið yrði til atkvæða um breytingar á kosningalögum. Aftur með leyfi hæstv. forseta vil ég vitna í og lesa bókunina upp þannig að hún verði til í þingtíðindum. Þar segir:

„Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga tekur ekki efnislega afstöðu til þeirra breytinga sem lagðar eru til í frumvarpinu en telur varhugavert að samþykkja breytingar á lögum um kosningar til sveitarstjórna nú þegar rúmlega tveir mánuðir eru til kosninga. Stjórnin bendir á leiðbeiningar frá Evrópuráðinu þar sem fram kemur að stöðugleiki er mikilvægur varðandi kosningalöggjöf og telur að stjórnvöld og Alþingi eigi að starfa út frá þeirri meginreglu að ekki séu gerðar meiri háttar breytingar á kosningalögum þegar minna en eitt ár er til kosninga.“

Það er dálítið magnað að við skulum ætla að treysta okkur til þess að leggja ekki við hlustir og taka ekki með neinum hætti mark á því þegar Samband íslenskra sveitarfélaga biður okkur aðeins að róa okkur þannig að við séum alveg fullviss um hvað við erum að gera, að við tökum tillit til þess að í meginreglu eigum við ekki að vera að hringla í og fikta í kosningalögum þegar innan við ár, hvað þá bara nokkrar vikur, eru til kosninga.

Ég sit í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd en hef ég ekki orðið var við það — þingmenn sem eru í salnum geta þá leiðrétt mig — að í dag hafi athygli þingmanna verið vakin á þessari bókun líkt og stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga bað um að gert yrði, bað formann og varaformann stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að vekja sérstaka athygli þingheims á þessari bókun. Ég hef ekki orðið var við að neitt hafi verið gert í þeim efnum og hlýtur maður að vera hugsi yfir því.

Það er tilviljun ein sem ræður því að ég fékk veður af þessari bókun og las hana. Það er nefnilega þannig að hitinn og þunginn af sveitarstjórnarkosningunum er hjá sveitarstjórnunum sjálfum. Að óbreyttu ætlar meiri hluti þingheims að fara þvert gegn óskum sveitarstjórna, stjórnar Sambands íslenskra sveitarstjórna. Það er ekki nóg með það, heldur á ekki í neinu að hlusta á sérfræðinga úr dómsmálaráðuneytinu sem vara við því að verið sé að gera hlutina með þeim hætti sem við ætlum að gera hér í dag með þeim fyrirvara sem verið er að gera. Menn vita ekki hvaða afleiðingar það getur hugsanlega haft. Menn vita hvernig leikreglurnar eru núna, menn vita nokkurn veginn hvernig á að framkvæma kosningarnar en það er verið að búa til óvissuþætti sem við vitum ekki hvaða afleiðingar hafa í för með sér.

Það er töluvert þegar við ætlum að samþykkja breytingar og það leikur vafi á því að hægt sé að framkvæma kosningarnar með þeim hætti sem við gerum kröfu til að kosningar gangi fyrir sig á Íslandi, eðlilega og hnökralaust. Við ætlum að hunsa ráð sérfræðinganna. Við ætlum að hunsa óskir Sambands íslenskra sveitarfélaga. Einhvern tímann hefðu einhverjir hér gert athugasemd við að slíkar óskir yrðu virtar að vettugi en í þessu máli hentar það ekki.

Virðulegi forseti. Þetta liggur þungt á mér vegna þess að ég er kominn í þá stöðu að það er verið að stíga skref sem ég er í hjarta mínu sammála. Ég er sammála því að auka réttindi ungs fólks, 17–18 ára. Það er það sem ég hef barist fyrir í mörg ár og talað fyrir innan míns flokks. En mér er stillt upp með þeim hætti að ég get ekki stutt málið vegna þess að ég óttast að afleiðingarnar af því sem við erum hugsanlega að gera hér verði þannig að framkvæmd kosninganna gangi ekki fyrir sig eins og við gerum kröfu til að hún verði. Það er eiginlega ömurleg staða að vera kominn í, að þurfa að standa hér og mæla gegn því að taka skref, þótt það sé ekki nema pínulítið skref af því sem ég vil taka, miklu minna skref en ég hef talað um, og þurfa að standa gegn því vegna þess hvernig staðið er að verki, vegna þess að öll viðvörunarorð eru virt að vettugi. (Forseti hringir.) Ekki er hlustað á ráðleggingar sérfræðinga.

Virðulegi forseti. Þetta er einhver ömurlegasta staða sem nokkur þingmaður getur komið sér í.