148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[18:44]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er akkúrat það sem ég var að benda á og margir fleiri hér á undan í umræðunum. Þetta er vandamál. Hv. þm. Björn Leví Gunnarsson getur auðvitað gert lítið úr því alveg eins og hann gerir lítið úr áhyggjum og ábendingum sérfræðinga í dómsmálaráðuneytinu sem hv. þingmaður … (Gripið fram í.) Hv. þingmaður skal nú leyfa mér að svara og hætta öllum frammíköllum. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður verður að virða það að nú er ég í ræðustól. Ég veit að það er stundum erfitt að sitja á sér, ég þekki það sjálfur, en þegar meginreglan er orðin frammíköll vegna þess að viðkomandi hv. þingmanni líkar ekki það sem sagt er í ræðustól þá verður hann að eiga við þann vanda sjálfur. Ég ætla ekki að hjálpa honum.

Ég er bara að segja að menn geta ekki farið fram með þessum hætti eins og gert er og hunsað óskir sveitarfélaganna, virt að vettugi ráð og ábendingar og viðvaranir sérfræðinga í dómsmálaráðuneytinu. Ég er ekki tilbúinn til þess. Ég treysti mér ekki til þess. Ég ber miklu meiri virðingu fyrir lýðræðinu og kosningarréttinum en svo að ég ætli að tefla honum í tvísýnu bara svona af því bara.