148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[18:54]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætlaði ekkert að koma hérna upp en síðan heyrði ég hv. þingmann lýsa þessari bókun frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga sem gerð var í dag, eins og ég skildi málið. Það sem aðeins ýtti við mér var að nú upplýsti hv. þingmaður um að bókun þessi hefði verið send á formann og varaformann stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og forseta Alþingis. Ég velti fyrir mér hvort þingmaðurinn og þá aðrir nefndarmenn í nefndinni hafi verið upplýstir um bókunina, hafi fengið þau skilaboð frá formanni stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að þættinum hefði borist bréf, þ.e. að þessi bókun hefði verið send. Mér finnst það nokkuð alvarlegt mál ef svo hefur ekki verið vegna þess að bæði formanni og varaformanni mætti vera ljóst að það væri meiningarmunur um í það minnsta hvenær það lagafrumvarp sem hér hefur verið til umfjöllunar ætti að taka gildi. Hv. þingmaður hefur farið mjög ítarlega yfir sín sjónarmið varðandi það að almennt vill hann færa ungmennum og yngra fólki meiri ábyrgð.

Það er mjög gott og allt skýrt með það en ég spyr hv. þingmann: Hafði hann vitneskju frá formanni stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um að þessi bókun hefði verið lögð fram? Ef ekki, hvar fékk hann þá vitneskju?

Ef þingmaðurinn fékk ekki upplýsingarnar, er hann sáttur við þá stjórnvisku sem viðhöfð er í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, að upplýsa ekki um slíkt?