148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[18:56]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst til að taka af allan vafa — formanni stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar var send þessi bókun samkvæmt því sem kemur fram á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga. Það var í samtali við annan hv. þingmann sem athygli mín var vakin á þessu eftir að viðkomandi þingmaður hafði átt samtal við starfsmann Sambands íslenskra sveitarfélaga. Forseta þings var sent afrit en hins vegar var óskað eftir því að athygli þingmann, ekki bara nefndarinnar, heldur þingmanna allra yrði vakin á þessari bókun áður en gengið yrði til atkvæðagreiðslu. Nú er sá tími ekki liðinn, við erum ekki alveg komin að atkvæðagreiðslunni, en það hefði a.m.k. verið þægilegra fyrir þá þingmenn sem hafa haldið ræður hér í dag að þeir hefðu vitað af þessari bókun. Hún er síðasta tilraun Sambands íslenskra sveitarfélaga til að — ég ætla ekki að segja koma vitinu fyrir okkur en það biðlar a.m.k. til okkar um að hægja aðeins á okkur.

Auðvitað er ekki góður bragur að það sé ekki gert en ég hygg að það sé ekki bein skylda samkvæmt þingsköpum. Það hefði a.m.k. verið rétt að upplýsa þá sem sitja í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd um þessa bókun. Mér vitanlega hefur það ekki verið gert. Ég hef ekki fengið tölvupóst þess efnis. Ég hef ekki fengið SMS eða símtöl til að vekja athygli mína á þessu. Það vekur mig til umhugsunar um af hverju menn telja rétt að standa þannig að verki.

Hv. þm. Jón Gunnarsson taldi í umræðu um fundarstjórn forseta rétt að (Forseti hringir.) stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd kæmi á sérstakan upplýsingafund áður en að atkvæðagreiðslu kæmi og að þangað yrði kallaður ráðherra sveitarstjórnarmála. (Forseti hringir.) Það kann að vera að það sé rétt.