148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[18:58]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Nú stendur hv. formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í dyrunum og ég held að þá sé ágætt að upplýsa um það hvort formaður nefndarinnar hafi fengið þetta erindi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Ég vissi reyndar ekki að það hefði verið hvatning um að upplýsa alla þingmenn um innihaldið, en ég hef svo sem ekki fengið að heyra af því frekar en aðrir. Ég held að það sé mjög mikilvægt að hafi yfirmenn þessarar ágætu nefndar, formaður og varaformaður, fengið áskorunina frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga sé henni komið til þingmanna hið allra fyrsta þar sem óskað hafi verið eftir því. Í það minnsta þarf að skýra hvers vegna það hefur ekki verið gert.

Nú getum við hins vegar ekki fullyrt hvort þessir ágætu einstaklingar hafi fengið þennan póst eða bréf eða hvernig þessu var komið til skila.