148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[18:59]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt, þess vegna taldi ég rétt að vekja athygli þeirra þingmanna sem eru í salnum á þessari bókun. Ég sá að þetta virtist fara ofan garðs og neðan vegna þess að athygli okkar hafði ekki verið vakin á þessu með neinum skipulögðum hætti. Það er tilviljun að ég frétti af henni. Ég ætla engum neinar óeðlilegar hvatir í þessum efnum. Það geta verið mistök, við erum t.d. misjafnlega dugleg að fylgjast með tölvupóstum, það fer ýmislegt fram hjá mér — sem betur fer stundum.

Ég held að skilaboðin séu komin, a.m.k. held ég að allir þingmenn sem vilja vita ættu að vita að þessi bókun var gerð. Hún var send inn. Þetta er lokatilraun stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga til að fara fram á það við okkur að við (Forseti hringir.) hægjum aðeins á okkur og förum að þeirra óskum um að gera ekki þessar breytingar (Forseti hringir.) í óðagoti á elleftu stundu.