148. löggjafarþing — 45. fundur,  9. apr. 2018.

vegtollar.

[15:10]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Hv. þingmaður getur skemmt sér við einhverja svona kerskni og látið eins og hér sé verið að hverfa frá fyrri sýn. Auðvitað er það ekki svo. (ÞKG: Nú?) Samgönguáætlun sem hér var samþykkt 2016 var ekki fjármögnuð. Munurinn á þessari fjármálaáætlun og þeirri sem hv. þingmaður stóð að á sínum tíma er að nú er samgönguáætlunin sem var samþykkt á þingi 2016 fjármögnuð. Það er munurinn. Það er það sem ég var að vísa í. Það dugir ekki annað en að horfa til þess hvernig við getum fjármagnað innviðina og fylgt því sem Alþingi hefur samþykkt og ekki hefur verið gert hingað til, því miður.

Ég ætla að minna á að hæstv. forseti sem var fjármálaráðherra og hefur verið í flokki með þeirri sem hér stendur alllengi var sá sem stóð meðal annarra fyrir því að koma á gjaldtöku í Hvalfjarðargöngum með nákvæmlega þeim rökstuðningi sem ég fór yfir hér áðan. Við höfum aldrei útilokað gjaldtöku ef aðrar leiðir eru mögulegar. Við höfum hins vegar sett fram verulegar efasemdir um að setja gjaldskylduhlið til að mynda í kringum höfuðborgarsvæðið, sem er ein af þeim hugmyndum sem hafa verið til umræðu.

Síðan vil ég ítreka það sem ég sagði áðan, að það er verkefni okkar hér, löggjafans, að fara yfir gjaldtökukerfið í heild sinni. Ég fagna því að hv. þingmaður sé reiðubúinn til þess því að við þurfum að fara að taka tillit til orkuskipta (Forseti hringir.) og breyttra aðferða og nálgunar þegar kemur að því hvernig við fjármögnum samgöngukerfið, (Forseti hringir.) sem við gerum í dag með bensíngjaldinu.