148. löggjafarþing — 45. fundur,  9. apr. 2018.

staðan í ljósmæðradeilunni.

[15:16]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Forseti. Eins og bent hefur verið á í þessari umræðu allri saman er nokkuð óvenjuleg staða uppi hjá ljósmæðrum þar sem þær eru félagar í öðru stéttarfélagi þegar þær hefja störf sem ljósmæður en þær voru sem hjúkrunarfræðingar. Það veldur óvenjulegri stöðu borið saman við aðrar stéttir sem hv. þingmaður nefnir. Það er ákvörðun sem ljósmæður taka í kjaraumhverfi sínu, að vera í sérstöku stéttarfélagi sem er aðildarfélag að BHM en Félag hjúkrunarfræðinga er sérstakt stéttarfélag. Það er ekki verkefni stjórnvalda að hafa skoðanir á slíku fyrirkomulagi. Það er verkefni aðila vinnumarkaðarins, í þessu tilviki ljósmæðra sjálfra, hvernig þær skipa sér í stéttarfélög. En það var niðurstaða þeirra á sínum tíma að gera þetta með þessum hætti og við það geri ég enga athugasemd.