148. löggjafarþing — 45. fundur,  9. apr. 2018.

úrræði fyrir börn með fíkniefnavanda.

[15:17]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Í morgun barst bréf til allra þingmanna frá foreldrum barna í barnaverndarkerfinu. Bréfið lýsir áralangri þrautagöngu foreldra sem hafa barist fyrir því að halda lífi í barni sínu. Það lýsir kerfislægri vanrækslu í garð barna með fíknivanda. Saga þeirra er átakanleg en hún er því miður ekki einsdæmi. Fjölmargir foreldrar eru í sömu stöðu en þora ekki að tjá sig af ótta við að það kunni að koma niður á meðferð barna þeirra.

Í tilkynningu frá velferðarráðuneytinu í síðustu viku kom fram að hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra hefði áform um aðgerðir til að bregðast við bráðavanda og aðgerðir til lengri tíma. Meðal annars var greint frá tilraunaverkefni fyrir unglinga sem sótt hafa meðferðarúrræði en ekki náð tökum á vanda sínum. Um yrði að ræða sérhæft búsetuúrræði í framhaldi af vistun á meðferðarheimili þar sem áhersla yrði lögð á eftirmeðferð og stuðning við aðlögun að samfélaginu.

Í viðtali við forstöðumann Stuðla í morgun kemur fram að unnið sé að fjármögnun fyrir nýju vistheimili og að undirbúningur heimilisins gangi hratt en erfitt geti verið að setja á laggirnar nýtt meðferðarheimili. Einnig er tekið fram að aðeins verði tekið á móti tveimur til þremur börnum til að byrja með.

Það ástand sem við búum við nú er að börn og unglingar með fíknivanda þurfa að sitja í neyðarvistun í töluverðan tíma vegna skorts á öðrum úrræðum, í herbergjum sem hefur verið lýst eins og fangaklefum. Oft þarf að vísa börnum frá sem hvergi hafa aðgang að úrræði og enda því aftur á götunni. Eins og fram kom í fréttum í morgun hefur frá áramótum þurft að vísa 20 börnum frá neyðarvistun að Stuðlum vegna plássleysis.

Forseti. Þessu ástandi má einfaldlega lýsa sem neyðarástandi. Nú skilst mér að nýtt vistheimili sé tilbúið til notkunar. Spyr ég því hæstv. ráðherra: Hvað veldur töfinni? Hvers vegna er erfitt að setja úrræðið á laggirnar? Er það rétt að ekki sé komið fjármagn í verkefnið? Hvenær má vænta þess að nýtt vistheimili verði komið í gagnið svo börn og unglingar með fíknivanda þurfi ekki að gista í svo gott sem fangaklefum eða að þeim sé hreinlega vísað frá?