148. löggjafarþing — 45. fundur,  9. apr. 2018.

smálán.

[15:46]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Allt frá því að starfsemi svonefndra smálánafyrirtækja hófst hér á landi árið 2010 hafa þau og lánveitingar þeirra af og til orðið tilefni til umræðna á opinberum vettvangi. Lánaskilmálar smálánafyrirtækjanna eru af mörgum taldir óforskammað dæmi um okur, og ýmislegt í starfsháttum þeirra þykir bera vott um rangsleitni og jafnvel pretti, svo sem þegar farið var í kringum lög með því að dylja ofurháar vaxtaálögur með málamyndakaupum á rafbók eins og tíðkað hefur verið.

Það er einnig mál margra að smálánum sé einkum beint að samfélagshópum sem búa við slakan efnahag og ungu fólki. Nýlegar upplýsingar frá embætti umboðsmanns skuldara staðfesta þetta og sýna svo ekki verður um villst að það er einkum ungt, tekjulágt fólk sem tekur smálánin og ratar í slíkan greiðsluvanda vegna þeirra að það neyðist til að leita aðstoðar embættisins við að leysa úr vandkvæðum sínum.

Starfsemi smálánafyrirtækjanna felst í því að lána fé til skamms tíma og eru vextir gríðarháir. Þannig geta nafnvextir á ársgrundvelli numið hundruðum prósenta. Samkvæmt gildandi lögum er slík vaxtataka ólögleg en farið er í kringum það með því að kalla vextina lántökukostnað, og ýmsum öðrum yfirdrepsskap er beitt til að hækka endurgjaldið fyrir lánveitinguna umfram það sem heimilt er.

Neytendasamtökin hafa haldið úti harðri og beinskeyttri gagnrýni á smálánafyrirtækin vegna viðskiptahátta þeirra. Árið 2016 lagði Neytendastofa stjórnvaldssektir á þrjú smálánafyrirtæki vegna óleyfilega hás lántökukostnaðar. Enn fremur lagði Neytendastofa 10 millj. kr. stjórnvaldssekt á smálánafyrirtækið E-content auk 500.000 kr. dagsekta í júlí 2017 þar sem fyrirtækið hafði í engu sinnt tilmælum um að breyta starfsháttum sínum. Allar framangreindar ákvarðanir Neytendastofu hafa hlotið staðfestingu áfrýjunarnefndar neytendamála en ekki liggur fyrir hvort álagðar sektir hafa verið greiddar.

Svo er að skilja sem þau smálánafyrirtæki sem láta mest að sér kveða um þessar mundir séu með heimilisfesti erlendis og starfrækt þaðan. Ekki liggur fyrir hvernig eignarhaldi á þessum fyrirtækjum er háttað. Samskipti smálánafyrirtækja við lántakendur fara fram á netinu og í gegnum síma þannig að þau eru ekki staðbundin. Ágangur þeirra er gríðarlegur og stöðug SMS-skeyti eru send þeim sem einhvern tímann hafa skráð sig hjá þeim og bent er á alls konar tilboð sem vert væri að leyfa sér, enda ekkert mál að fá lán fyrir þeim.

Smálánafyrirtækin eru hluti hinna víðtæku umbreytinga sem eiga sér nú stað á fjármálamarkaði með tilkomu snjalltækja og ýmiss konar netbundinna stafrænna tæknilausna. Þessi nýja fjármálatækni, FinTech, þróast hratt og í sumum tilfellum hraðar en löggjöfin sem um hana gildir. Vera kann að sú sé einmitt raunin hér á landi, að löggjafinn hafi ekki brugðist nægilega vel og einarðlega við breytingum sem hafa orðið á þessu sviði. Sem dæmi um það er að smálánafyrirtækin taka engan þátt í að fjármagna starfsemi umboðsmanns skuldara þrátt fyrir að það séu fjármálafyrirtæki og lánastofnanir, Íbúðalánasjóður, lífeyrissjóðir og vátryggingafélög sem standa straum af kostnaði við það embætti.

Þar sem smálán eru að verulegu leyti orðin ástæða þess að fólk leitar til umboðsmanns skuldara skýtur það óneitanlega skökku við að fyrirtækin sem stunda smálánastarfsemina skuli ekki vera í hópi þeirra sem fjármagna embættið. Fregnir af afleiðingum af starfsemi smálánafyrirtækjanna hljóta einnig að gefa tilefni til athugunar á því hvort regluverki um starfsemi þeirra og neytendarétt á þessu sviði kunni að vera áfátt og því tilefni til þess fyrir Alþingi að bæta úr þeim ágöllum sem kunna að vera á lögum og reglum sem varða smálánafyrirtæki og viðskiptavini þeirra.

Virðulegi forseti. Í ljósi þess sem ég hef nú þegar rakið um stöðu og áhrif smálánafyrirtækja á íslenskum fjármálamarkaði eru nokkrar spurningar sem mig langar til að beina til hæstv. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Þær eru eftirfarandi:

Hvað telur hæstv. ráðherra, með tilliti til gagnrýni á starfsemi smálánafyrirtækja og viðurlaga sem þau hafa verið beitt fyrir brot á reglum, að þurfi að gera í úrbótaskyni af hálfu löggjafans?

Telur hæstv. ráðherra rétt að skylda smálánafyrirtækin til að standa straum af kostnaði við rekstur embættis umboðsmanns skuldara með sama hætti og önnur fjármálafyrirtæki?

Telur hæstv. ráðherra ástæðu til að setja ítarlegri skilyrði en nú er heimild fyrir til að starfrækja smálánafyrirtæki?

Telur hæstv. ráðherra að starfsemi smálánafyrirtækja eigi að vera háð eftirliti Fjármálaeftirlitsins? — Ég missti af færi í morgun á að spyrja Fjármálaeftirlitið hvað því fyndist þegar það kom á fund fjárlaganefndar.

Væri að mati hæstv. ráðherra æskilegt að gerð yrði úttekt á starfsemi smálánafyrirtækja og áhrifum þeirra á viðskiptamannahóp sinn með tilliti til þess að smálánastarfsemi hefur átt sér stað hér á landi frá árinu 2010 þannig að talsverð reynsla hefur fengist af henni?

Er hæstv. ráðherra kunnugt um hvort stjórnvalds- og dagsektir sem lagðar hafa verið á smálánafyrirtæki á síðustu árum hafa verið greiddar?