148. löggjafarþing — 45. fundur,  9. apr. 2018.

smálán.

[15:51]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að óska eftir sérstakri umræðu um smálánafyrirtæki og starfsumhverfi þeirra. Þessi mál hafa verið í deiglunni að undanförnu og þess vegna við hæfi að Alþingi taki þau til sérstakrar umræðu. Ég mun hér svara þeim sex spurningum sem hv. þingmaður hefur lagt fram.

Að því er fyrstu spurninguna varðar um hvað þurfi að gera í úrbótaskyni af hálfu löggjafans með tilliti til gagnrýni á starfsemi smálánafyrirtækja þá er rétt að benda á að með lögum nr. 33/2013, um neytendalán, var ákveðið að fella smálán undir löggjöf um neytendalán. Við setningu þeirra laga var uppi talsverð umræða um smálánafyrirtæki og var brugðist við því með því að setja inn í lögin sérstakt ákvæði í 26. gr. sem beint var að smálánafyrirtækjum og kveður á um hámark kostnaðar vegna neytendalána. Þrátt fyrir þetta hafa smálánafyrirtæki fundið leiðir til að komast hjá þessu lagaákvæði um hámarkskostnað. Eitt slíkt mál fór fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur sem komst að þeirri niðurstöðu að ákveðin gjaldtaka smálánafyrirtækis, svokallað flýtigjald, væri ólögmæt. Nú er annað mál af svipum meiði fyrir dómstólum og rétt að bíða niðurstöðu þess.

Lögin um neytendalán frá árinu 2013 fela Neytendastofu eftirlit og ákveðin úrræði gagnvart smálánafyrirtækjum. Einhver smálánafyrirtæki starfa að öllu leyti í dag innan þess ramma sem lög um neytendalán setja og mikilvægt að hafa það í huga. Bent hefur verið á að önnur smálánafyrirtæki haldi áfram starfsemi sinni þrátt fyrir stjórnvaldssektir Neytendastofu. Ekki er unnt að stöðva slík fyrirtæki með því að svipta þau starfsleyfi þar sem lögin gera ekki ráð fyrir að um starfsleyfisskylda starfsemi sé að ræða.

Það er mín skoðun út frá sjónarmiðum um neytendavernd að núverandi staða mála þegar kemur að regluverki smálánafyrirtækja sé ekki eins og best verður á kosið og ástæða sé til að taka þau mál til nánari skoðunar. Varðandi hvað sé hægt að gera í úrbótaskyni af hálfu löggjafans þá eru þar ýmsar leiðir sem mögulega koma til greina, m.a. að gera starfsemina leyfisskylda, skilgreina smálánafyrirtæki sem fjármálafyrirtæki og færa þau þannig undir Fjármálaeftirlitið, gera auknar kröfur um upplýsingaskyldu og ýmislegt fleira. Innan ráðuneytis míns er nú hafin vinna við að fara skipulega yfir alla þætti smálána, skilgreina hugtakið smálán sem ekki hefur verið gert, greina stöðu smálánafyrirtækja og áhrif á íslenska fjármálamarkað sem og áhrif á neytendur. Ég mun á næstunni skipa starfshóp sem falið verður að gera heildstæða úttekt á starfsemi smálánafyrirtækja og koma fram með tillögur er lúta að regluverki smálánafyrirtækja.

Varðandi spurningu 2 um þátttöku smálánafyrirtækja til að standa straum af kostnaði við rekstur umboðsmanns skuldara þá tel ég rétt að það verði sömuleiðis skoðað nánar og tekið inn í þessa vinnu sem ég hef farið yfir, en bendi á að lög um greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara heyra undir velferðarráðuneytið og það þarf því að skoða slíka breytingu í samráði við það ráðuneyti.

Í spurningum 3, 4 og 5 kemur hv. þingmaður inn á atriði sem öll verða sömuleiðis tekin inn í þessa vinnu sem mér finnst mikilvægt að við förum í eftir reynsluna af því að hafa sett þessi lög og hvernig það hefur gengið. Ég vil einfaldlega fá frekari sjónarmið fram um þetta áður en við förum í einhverjar meiri háttar breytingar á umhverfinu.

Varðandi síðustu spurninguna um hvort ráðherra sé kunnugt um hvort stjórnvalds- og dagsektir sem lagðar voru á smálánafyrirtæki á síðustu árum hafa verið greiddar þá er svarið við því að Neytendastofa tekur ákvarðanir um beitingu stjórnvalds- og dagsekta samkvæmt lögum um neytendalán. Í kjölfarið fara slík mál til hefðbundinnar innheimtu hjá tollstjóra. Samkvæmt upplýsingum frá tollstjóra er gengið eftir innheimtu slíkra stjórnvalds- og dagsekta með sama hætti eins og almennt gengur um innheimtumál hjá tollstjóra. Þetta eru þær upplýsingar sem ráðuneytið fékk.

Flest þau smálánafyrirtæki þar sem viðurlög Neytendastofu hafa komið til innheimtu hjá tollstjóra eru nú undir gjaldþrotaskiptum.

Ég vil að lokum nefna það að við göngum lengra en Evrópulöggjöfin gerir kröfu um. Það er ekki þar með sagt að við getum ekki gengið enn lengra, en bara að það sé haft í huga. Þetta endurspeglar auðvitað á ákveðinn hátt hvernig við lítum á starfsemina, þ.e. að hún sé ekki eins og hver önnur starfsemi.

Það sem mér finnst mikilvægt, og við munum síðan ræða hérna og verður væntanlega rætt í þessum starfshópi, er einfaldlega að við horfum á stöðuna eins og hún er. Við viljum ná einhverjum markmiðum, við viljum breyta einhverjum þáttum. Þá eru ýmsar leiðir til þess og við þurfum einfaldlega að horfa til þess hvaða leið er líklegust til að skila árangri. Hluti af því er t.d. fjármálalæsi. Hvort er líklegra til að skila árangri; að gera reglurnar strangari eða fara í átak í fjármálalæsi og það sé ekki eitthvert tímabundið átak heldur sé í meira mæli í gegnum uppeldi og skólagöngu og annað? Það er það sem við þurfum að horfa til. Lögin eru auðvitað eitt verkfæri í þessu og viðurlögin. Ef viðurlögin virka ekki þá ber okkur auðvitað skylda til þess að huga að því. En ef við erum öll sammála um að vilja laga einhverjar aðstæður þá segi ég bara að við eigum að horfa á stöðuna og ræða það hvaða leið er líklegust til að skila árangri.