148. löggjafarþing — 45. fundur,  9. apr. 2018.

smálán.

[15:57]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu um vaxandi vandamál í íslensku samfélagi sem hv. þm. Oddný G. Harðardóttir hefur margsinnis vakið máls á, meðal annars með því að hafa frumkvæði að því að það var rætt í hv. efnahags- og viðskiptanefnd sem varð til þess að kallað var eftir minnisblaði frá hæstv. ráðherra neytendamála um viðbrögð við vandanum. Í minnisblaðinu sem barst nefndinni 5. mars síðastliðinn kemur fram að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hafi hafið vinnu við að fara yfir alla þætti sem lúta að smálánum. Skoða eigi hvað nágrannalöndin eru að gera og ákveða svo framhaldið. Svörin mættu vera eindregnari.

Í minnisblaði frá umboðsmanni skuldara kemur fram að í aldurshópnum milli 18 og 29 ára voru 70% þeirra sem leituðu til embættisins með smálán árið 2017, en hlutfallið var 62% árið 2016 og umsækjendur mun færri þá.

Meðaltal smálána á hverri umsókn var tæpar 600 þús. kr. árið 2017 en rúmar 400 þús. kr. 2016. Þannig eru smálán að verða sífellt stærri hluti af skuldavanda ungs fólks. Við vitum hver staðan er.

Hv. efnahags- og viðskiptanefnd bíður nú eftir minnisblaði frá Neytendastofu um hvaða ákvæði laga um neytendalán þau telja að þurfi að breyta og með hvaða hætti. Óskandi er að á þessu þingi náist samstaða um það í hv. efnahags- og viðskiptanefnd að nefndin í heild sinni leggi fram frumvarp sem tekur á vandanum og eflir neytendavernd gagnvart þessum svokölluðu smálánum sem væru þó réttnefnd sem smánarlán.