148. löggjafarþing — 45. fundur,  9. apr. 2018.

smálán.

[15:59]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Smálánastarfsemin eins og hún er rekin á Íslandi í dag er ekkert annað en óværa sem þarf að uppræta með einhverjum hætti. Viðskiptavinirnir eru að stórum hluta fólk sem á hugsanlega ekki í önnur hús að vernda í lánamálum. Það lætur glepjast af gylliboðum og festist í gildru um leið og fyrsta lánið er tekið vegna þeirra ofurvaxta og kjara sem smálánin bjóða. Ég vil þakka málshefjanda sérstaklega fyrir að færa þetta mál hér inn í þingsal.

Ég sat á þingi árið 2013 þegar tilvitnuð lagabreyting var gerð. Ég held að við þingmenn þurfum að horfast í augum við að sú breyting dugði ekki til að koma böndum á þessa starfsemi. Þess vegna er ekki eftir neinu að bíða með að setja vinnu í gang nú þegar til þess að koma böndum á þessa starfsemi og gera starfsvettvang hennar það þröngan að hún leggist sem mest af.

Það er í sjálfu sér furðulegt og maður verður náttúrulega að játa það á sig að hafa tekið þátt í því að koma lagabreytingunni hér í gegn 2013 án þess að menn skyldu gera starfsemina starfsleyfisskylda. Það er út af fyrir sig ótrúlegur lapsus. Ef ráðherra hyggst fara í breytingar á starfsumhverfi þessara fyrirtækja heiti ég henni stuðningi við það verkefni og hvet hana til þess að hrinda þeim í framkvæmd hið fyrsta til þess að hægt sé að koma böndum á þessa starfsemi.