148. löggjafarþing — 45. fundur,  9. apr. 2018.

smálán.

[16:01]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda, hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur, fyrir að koma með þetta mál á dagskrá, starfsemi smálánafyrirtækja. Það er nauðsynlegt að ræða þetta hér og hefur reyndar oft verið í deiglunni alveg frá stofnun þessara fyrirtækja 2010. Við þurfum hreinlega að koma frekari böndum á þessa starfsemi en eins og hv. málshefjandi kom inn á hafa þessi fyrirtæki hingað til hunsað þær reglur og þær skorður sem þeim hafa þó verið settar hingað til.

Starfsemin hefur verið má segja umdeild alla tíð og fyrirtækin gagnrýnd fyrir viðskiptahætti, fyrir lánveitingarnar, háan lántökukostnað, markaðssetninguna og þau hafa algjörlega komið sér undan því að hlíta fyrirmælum sem sett hafa verið eða stjórnvaldssektum, dagsektum. Þessi fyrirtæki eru ekki hefðbundnar lánastofnanir og almennt er um að ræða lágar fjárhæðir hverju sinni. Það eru eiginlega engar kröfur gerðar til lántaka eða kannað í hvaða ástandi lántakar eru til að taka lán, oft er um að ræða fólk sem fær ekki lán annars staðar.

Árið 2013 var reynt að koma böndum á þetta með því að setja þak á þennan kostnað og tryggja að þessi fyrirtæki gætu ekki rukkað nánast hvað sem er. Síðan hafa fallið úrskurðir hjá Neytendastofu sem hefur eftirlit með þessari starfsemi en þessi fyrirtæki hafa nánast algjörlega hunsað þá, breytt lánaskilmálum, ég get t.d. nefnt (Forseti hringir.) það að þau hafa farið úr flýtigjaldi yfir í rafbækur o.s.frv. Það er augljóst mál að hér verðum við að endurskoða algjörlega skilyrði þessarar starfsemi.