148. löggjafarþing — 45. fundur,  9. apr. 2018.

smálán.

[16:04]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að reyna að vitna beint í orð hv. þm. Þorsteins Sæmundssonar, og taka undir með honum, sem sagði áðan að smálánastarfsemi eins og hún birtist á Íslandi í dag væri ekkert annað en óværa. Ég er hjartanlega sammála því og tel það frekar augljóst í þokkabót, en vandinn er greinilega sá að það er ekki skoðun allra, ekki skoðun þeirra sem taka þessi lán.

Hæstv. ráðherra fór aðeins inn á fjármálalæsi og velti upp þeirri áhugaverðu en þó ekki nýju spurningu um hvort myndi vinna betur á vandanum, aukið fjármálalæsi eða lög. Ég held hvort tveggja. Ég held að skortur sé á fjármálalæsi á Íslandi, ég held að til lengri tíma sé það frekar alvarlegt vandamál sem við eigum að leysa, og ég held að við getum leyst það. Ég held samt að það þurfi líka lög og ýmsar fleiri reglur til að hafa hemil á þeim fjármálaöflum sem beinlínis nýta sér annaðhvort þekkingarleysi fólks eða aðstæður þess. Því hefur verið varpað fram á hinu fróma interneti að til sé fólk sem þurfi ekki að heyra neitt um eitthvert fjármálalæsi, það sé bara í þeim aðstæðum í sínu lífi að það þurfi á þessum lánum að halda.

Nú ætla ég ekki að dæma um fjármál hvers og eins sem telur sig þurfa á þeim lánum að halda. Í fljótu bragði myndi ég segja: Nei, maður þarf aldrei á slíkum lánum að halda. Þetta eru aldrei lánin sem maður á að taka, að mínu viti, með þeim fyrirvara að ég þekki ekki persónuleg fjármál hvers og eins sem dettur í hug að segja eitthvað svona lagað.

Hitt er að ef staðan er þannig að fólk er í slíkri stöðu, og það er fólk í þeirri stöðu, að það telur sig þurfa umrædd lán eru þessi lán samt óværa. Þau koma niður á hagsmunum þessa sama fólks. Við eigum að setja lög, og það augljósasta sem mér finnst, reyndar eftir einungis nokkur samtöl við sérfræðinga sem þekkja málið betur en ég í heildina, er að þessi fyrirtæki ættu í það minnsta að vera leyfisskyld. Ég hef ekki heyrt nein rök gegn því hingað til. (Forseti hringir.) Ég er frekar hissa á því að þau séu það ekki nú þegar, ef ég á að segja alveg eins og er, og tel það vera skref sem við ættum að geta tekið strax án þess að skoða málið miklu frekar þótt fleira þurfi auðvitað að skoða í samhengi líka.