148. löggjafarþing — 45. fundur,  9. apr. 2018.

smálán.

[16:16]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Við þurfum miklu öflugri neytendavernd á þessum markaði. Þessi smálánafyrirtæki stunda grimma markaðssetningu og beina henni sérstaklega að ungu fólki og fólki sem stendur höllum fæti, að þeim sem standa veikastir fyrir. Þessi smálánafyrirtæki hafa verið beitt sektum vegna lagabrota sinna en þau halda áfram að brjóta lögin frá 2013 vegna þess að þau komast upp með það og það borgar sig fyrir þau. Ofsagróðinn er slíkur.

Þetta er fjármálastarfsemi. Þetta er bankastarfsemi. Fjármálastarfsemi á að lúta reglum sem gilda almennt um fjármálafyrirtæki. Það er óþolandi að þessi fyrirtæki skuli starfa einhvern veginn undir þeim radar.

Fólki hefur orðið hér tíðrætt um fjármálalæsi. Það er mjög mikilvægt að efla fjármálalæsi, mikil ósköp, og yfirleitt efla færni ungs fólks til að lifa af í þessu samfélagi. En samfélagið almennt talað á samt ekki að vera frumskógur. Lög og reglur eru ekki endilega fyrir þau sem vita og þekkja og þau sem eru læs í fjármálunum heldur eru þau ekki síst til verndar þeim sem eru fjármálaólæs, kunna ekki fótum sínum forráð, hafa tekið lán í einhvers konar aðstæðum sem (Forseti hringir.) þau ráða ekki við. Það er um þau sem við eigum að hugsa þegar við ræðum um þessi smánarlán.