148. löggjafarþing — 45. fundur,  9. apr. 2018.

smálán.

[16:18]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að hefja máls á þessu smálánafyrirtækjabixi, vil ég segja, og ráðherra fyrir að vera viðstödd umræðuna, og þeim sem hafa mælt hér áður.

Ég vil taka undir orð hv. þm. Þorsteins Sæmundssonar og fleiri um það að þessi smálánafyrirtæki eru í mínum huga óværa og mjög skrýtið að Alþingi hafi ekki komið lögum yfir þau fyrirtæki árið 2013 þegar það málefni var til umræðu á þinginu.

Talað er um fjármálalæsi, það mætti kannski efla fjármálalæsi, en ungt fólk, óreynt fólk, er kannski ekki nógu gott í fjármálalæsi. Ég höfða líka til þeirra sem eru í óreglu, eiga við fíkniefna- og áfengisvanda að stríða og þurfa að fjármagna starfsemi sína strax og annað slíkt. Það er margt sorglegt í kringum það.

Talað er um sjálfsvirðingu, að góð sjálfsvirðing sé aldrei í lagi nema fjármálin séu í lagi hjá viðkomandi. Þeir sem lenda í fjárhagsvandræðum, sem gerist auðveldlega hjá þeim sem eru ekki með vaðið fyrir neðan sig í fjármálalæsi, getum við sagt, eru oft lengi að vinna úr því. Menn og konur geta verið lengi fram eftir ævinni að vinna sig út úr vandræðum í sambandi við fjármál. Þess vegna eigum við að koma böndum á smálánastarfsemi. Það er ólíðandi, finnst mér, hvernig þeim málum er háttað í dag og við eigum að standa í lappirnar sem þjóð í þeim efnum.