148. löggjafarþing — 45. fundur,  9. apr. 2018.

smálán.

[16:23]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mér finnst gott að heyra í þessari umræðu að það virðist vera samhugur meðal allra í þingsal um að gera þessa starfsemi leyfisskylda. En mér skilst á sérfræðingum sem ég hef haft færi á að ræða við í nefnd og annars staðar að það myndi gera t.d. Neytendasamtökunum og Neytendastofu og öðrum aðilum auðveldara um vik að framfylgja þeim reglum og meginsjónarmiðum sem við höfum sett og lagt fram í þessum bransa.

Mig langar líka aðeins að fara inn á áhugavert atriði sem hv. þm. Þorsteinn Víglundsson nefndi hérna áðan. Það er punktur sem er nefndur aðeins of sjaldan hér í þingsal, það er hættan á því að þegar við, hinn göfugi löggjafi, setjum lög og förum að banna hluti þá bregst samfélagið stundum ekki við á þann hátt sem við viljum að það geri. Það kemur fyrir, og kemur í ljós að flest fólk er tiltölulega frjálst og getur gert það sem því sýnist, hvað sem tautar og raular. Við reynum að búa til einhverja umgjörð sem nær markmiðum sínum, en þá þurfum við að átta okkur á þessari staðreynd, óháð því hvað okkur finnst síðan um blessað frelsið.

Í því samhengi er mikilvægt að átta sig á því hvað veldur því að skuld merki eitthvað. Á siðmenntuðum nótum þýðir skuld það að til staðar séu dómstólar eða eitthvert slíkt vald sem getur úrskurðað um lögmæti skuldar og getur gert eitthvað í því ef hún er ekki borguð. Svo erum við með alls konar ferla í kringum það, m.a. gjaldþrot. Það er þegar við erum komin á þann stað að skuld verður innheimt með öðrum leiðum, nefnilega ofbeldi, sem við sjáum fram á þann þröskuld.

Til að svara hv. þingmanni varðandi hans annars áhugaverðu og mikilvægu hugleiðingu þá held ég ekki að við förum á þann stað með því að ganga lengra í lögum gagnvart þessu eina fyrirtæki sem starfar á Íslandi. Ef svo væri myndi ég kannski staldra aðeins lengur við. En ég held ekki að það verði þannig. Þótt rökin séu mikilvæg og vel þess virði að íhuga þau alltaf þegar við setjum lög um samfélag okkar held ég að það muni ekki leiða það af sér í þessu tilfelli. En við sjáum til hvað kemur út úr þeirri vinnu sem hæstv. ráðherra hefur boðað.