148. löggjafarþing — 45. fundur,  9. apr. 2018.

smálán.

[16:25]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir að hefja þessa umræðu og ráðherra fyrir að vera til svara. Við erum að ræða okurlánastarfsemi sem er ekkert annað en fjárhagslegt ofbeldi gagnvart ákveðnum hópi fólks, sérstaklega þeim sem verst standa fjárhagslega.

Hv. þingmaður á undan mér talaði um að það væri erfitt að setja lög sem virkuðu. Við erum búin að vera að tala um að þetta sé hálfgerð óværa. Áður fyrr, í fornöldinni, notuðum við kross og vígt vatn á óværur. Ég efast um að það dugi í þessu tilfelli.

En hverjir taka þessi lán? Ég var formaður Bótar og er enn. Þar kynntist ég fólki sem hefur tekið smálán. Það var ekki ógæfufólk, það var fólk á örorku, það var fólk sem tók smálán vegna þess að það átti ekki fyrir mat út mánuðinn, fólk með börn sem hafði engin önnur úrræði en að taka þessi lán. Það er það ömurlegasta af öllu í þessu þjóðfélagi okkar, sem við segjum að sé ríkt og að allir eigi að hafa það gott, að það sé hægt að spila inn á þá sem eru verst staddir og þurfa fjármuni til að lifa af, bara hreinlega til að kaupa mat eða komast til læknis.

Freistingin er mikil þegar hægt er að taka bara upp símann og fá lán á einu augabragði.

Annað í þessu sem er svolítið undarlegt er að við erum að tala um fleiri hundruð prósent. Maður sér 372% vexti. Ég man þegar ég var að vinna í Brynju á Laugaveginum að fyrirtæki sem bauð 30% vexti var lokað. Lögreglan kom og lokaði. Það var okurstarfsemi. Hvað erum við að tala um hér og hvers vegna í ósköpunum látum við þetta viðgangast? Ég trúi ekki öðru en að við getum stoppað þetta.