148. löggjafarþing — 45. fundur,  9. apr. 2018.

dreifing ferðamanna um landið.

[16:44]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. málshefjanda, Líneik Önnu Sævarsdóttur, fyrir að setja þetta mikilvæga mál á dagskrá. Því miður eru fjölmargar vísbendingar um að í stað þess að horfa til dreifingar ferðamanna um landið séum við að taka nokkur skref aftur á bak í markaðssetningu landsins erlendis og þegar kemur að aðkomu landshlutanna í gegnum markaðsstofurnar í markaðssetningu til erlendra ferðamanna. Í því samhengi má nefna ágæta skýrslu um þolmörk ferðamennsku sem hæstv. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hefur nú lagt fram. Þar erum við með mjög mikilvæga samantekt og gott mat á stöðu mála en ég vil nota þetta tækifæri nú og brýna hæstv. ráðherra að gæta að því að fókusinn fari ekki allur í að laga þessi svæði, sem þó er sannarlega mikilvægt, heldur setji fókusinn einmitt á að reyna að breyta þessu með því að markaðssetja önnur svæði. Staðreyndin er sú að við tölum á tyllidögum fjálglega um að dreifa ferðamönnum um landið en svo er lítið gert, ekkert framkvæmt.

Sem dæmi um það má nefna að enn er ekki búið að skrifa undir samninga við markaðsstofur landshlutanna með Ferðamálastofu. Staðreyndin er sömuleiðis sú að af 150 millj. kr. sem áttu að renna til eflingar landshlutanna lítur út fyrir að aðeins tveir þriðju hlutar þess fjármagns muni raunverulega renna beint til eflingar markaðsstofa landshlutanna og verkefna sem þar eru sett í forgang. Ég spyr hæstv. ráðherra: Er það ásættanlegt?

Herra forseti. Þá hefur sömuleiðis verið fallið frá framlagi sem hefur farið til markaðssetningar landshlutanna erlendis og virðast landshlutarnir vera í einhvers konar limbói á milli ráðherra sem hlýtur augljóslega að vera óásættanlegt í alla staði, enda þýðir það að landshlutarnir sitja ekki við sama borð þegar kemur að markaðssetningu erlendis þar sem ekki hafa allir landshlutarnir á að skipa sterkum ferðaþjónustufyrirtækjum sem geta greitt inn í sameiginlega markaðssetningu svæðanna. Það þýðir sömuleiðis að þeir landshlutar sem sitja aftast á merinni hvað varðar fjölda ferðamanna sitji enn og aftur eftir með sárt ennið.