148. löggjafarþing — 45. fundur,  9. apr. 2018.

dreifing ferðamanna um landið.

[17:00]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Mig langar að byrja á að þakka hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur fyrir þessa umræðu. Hér er kannski ágætt að byrja að ræða aðeins um flugþróunarsjóðinn sem málshefjandi ræðir í spurningum sínum og mig langar að benda á árangursríkt starf flugþróunarsjóðsins í tengslum við flug Super Break til Akureyrar frá Bretlandi. Það sem er merkilegast við það flug bresku ferðaskrifstofunnar er að 95% flugsæta voru þegar seld áður en fyrsta flugið fór af stað, með tilliti til þess að flugferðunum hafði verið fjölgað úr átta í 14 á síðustu mánuðum fyrir fyrsta flug. Ferðaskrifstofan ákvað því að fara ekki í auglýsingaherferð vegna flugsins heldur bíða með auglýsingaherferð og auglýsa flug vegna næsta vetrar þar sem settar hafa verið upp 22 flugferðir og nú þegar er búið að selja 20% þeirra sæta sem verða í boði eftir átta mánuði.

Í dag aflaði ég mér upplýsinga um að þeir eru nú þegar farnir að bæta við ferðum og þær verða a.m.k. 26 næsta vetur.

Það sem mér finnst lærdómsríkast í þessu og áhugaverðast við allt þetta dæmi er hin gríðarlega eftirspurn eftir fluginu. Það finnst mér gott að þingheimur heyri hér.

Síðan tel ég annað mikilvægt atriði í þessu — við höfum bara tvær mínútur og erfitt að fara víða — en það er eigandastefna Isavia og hvernig við sjáum til framtíðar hvernig eigandastefnan á að þjónusta markmið ríkisins í þessum málefnum. Þess vegna er mikilvægt að eigandastefnan komi fram sem fyrst. Ég tel að von sé til þess að hin nýja sértæka eigandastefna um tilgang Isavia fyrir ríkið og okkur Íslendinga komi fram seinni part þessa árs og bíð spenntur eftir henni.

Síðan tel ég mikilvægt rétt í lokin að minnast á mikilvægt starf markaðsstofa landshlutanna. Við skulum stefna að því að virkja þær betur.