148. löggjafarþing — 45. fundur,  9. apr. 2018.

dreifing ferðamanna um landið.

[17:02]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Eins og hæstv. ráðherra kom inn á í ræðu sinni áðan virðist því miður vera svo að markaðssetning Íslandsstofu sé komin aftur í þann farveg að einblína á Ísland í heild í stað þess að lyfta landshlutunum hverjum og einum og virðist samtalið við landshlutana vera lítið eða ekki neitt. Við hljótum að gera athugasemdir við þetta vinnulag. Við sjáum það til að mynda af þeim árangri sem náðst hefur með flugi Super Break á Norðurlandi, eins og hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson kom inn á, að þetta er vel hægt ef allir vinna saman.

Ég vil því leggja áherslu á það við hæstv. ráðherra að gæta raunverulega að dreifingu ferðamanna um landið og minnka þannig óþol íbúa, náttúru og ferðamanna á suðvesturhorninu. Þannig væri til að mynda tilvalið að fá skýrslu sem sýnir raunverulega stöðu hvers landshluta þegar kemur að ferðaþjónustu í stað þess að horfa alltaf á landið í heild og í kjölfarið yrði farið í sérstakt átak í kynningu á þeim landshlutum sem ekki eru að fá ferðamenn og þá sömuleiðis þeim landshlutum sem ekki hafa verið að njóta komu ferðamanna í sínum landshlutum. Samhliða væri hægt að fara í átak í samgöngum til þess að þau svæði sem sitja eftir þegar kemur að þeim geti tekið raunverulega á móti ferðamönnum, enda dugar uppbygging segla lítið ef ekki er hægt að komast að þeim, eða ef ekki er til peningur einu sinni til að markaðssetja þau svæði.

Eins og hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir kom inn á áðan vitum við hvaða verkefni þetta eru. Vilji þingsins hefur margoft komið fram. Við þurfum að ganga í þau verkefni ekki síðar en strax.

Herra forseti. Það er þyngra en tárum taki að við séum ekki komin lengra þegar kemur að dreifingu ferðamanna um landið. Við hljótum að geta gert betur. Ég veit að hæstv. ráðherra hefur vilja til þess. Tökum höndum saman og gerum betur.