148. löggjafarþing — 45. fundur,  9. apr. 2018.

dreifing ferðamanna um landið.

[17:15]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Það eru fjölmörg atriði sem ég myndi vilja koma inn á, sjáum hvað ég kemst langt með þau. Ég vil byrja á að koma umræðunni aðeins á réttan stað þegar fjallað er um að lítið hafi verið gert til að dreifa ferðamönnum betur um landið. Ég er fullkomlega ósammála því. Allt sem stjórnvöld eru að gera má með beinum eða óbeinum hætti tengja við það markmið að dreifa ferðamönnum betur um landið með því að dreifa álagi og ávinningi af uppbyggingu sem ferðaþjónustan hefur skilað okkur.

Vegna efasemda um þann forgang minn að efla markaðsstofurnar, að það fé muni renna allt til markaðsstofanna, get ég fullvissað hv. þingmann um að það verður þannig. Allt það fé sem á að renna til markaðsstofanna mun gera það, en það er alveg rétt að samningar hafa ekki verið kláraðir. Ég vona innilega að þeir klárist á næstunni.

Varðandi markaðssetningu erlendis er auðvitað alveg rétt að hún skiptir máli. Þá segi ég í rauninni bara aftur: Íslandsstofa getur ekki án markaðsstofanna verið og markaðsstofurnar líklega ekki án Íslandsstofu. Þessi samvinna skiptir mjög miklu máli fyrir landið allt og fyrir það verkfæri okkar. Þess vegna setjum við fjármuni í það. Við vitum alveg að markaðsstofurnar eru að vinna þessa vinnu í nærsamfélögunum. Það skiptir máli.

Ég ætla hins vegar ekki að segja að við séum búin að setja punkt aftan við það að dreifa ferðamönnum betur um landið. Þar er mikið verk óunnið. Við sjáum það á nýtingu hótela og heimsóknum á ýmsum stöðum. Þetta þekkjum við erlendis frá líka og ef við hugsum um hvert við förum þegar við heimsækjum sjálf önnur lönd, svo það sé líka sagt.

Bara sem dæmi um þær breytingar sem við sjáum kom t.d. Markaðsstofa Norðurlands á fluginu með Super Break með hjálp góðra manna og milli janúar 2017 og svo janúar 2018 sáum við 60% aukningu á hótelgistingu — bara þennan mánuð. (Forseti hringir.) Þetta er beintengt því að beint flug er á þennan stað.

Komið var inn á Vestfirði og þá vildi ég bara segja að auðvitað tek ég undir allt sem hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir kom inn á. Það strandar ekki á mér en þessi umræða snerist um flugþróunarsjóðinn og þess vegna er meira fjallað um Egilsstaði og Akureyri.