148. löggjafarþing — 45. fundur,  9. apr. 2018.

viðbrögð við fjölgun ferðamanna.

305. mál
[17:29]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á að þakka fyrirspyrjanda, hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni, fyrir að leggja fram þessa fyrirspurn og þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Fyrirspurnin gengur út á viðbrögð við fjölgun ferðamanna og ljóst að fyrirspyrjandinn er sérstaklega að huga að landvörslu og setja fram hugmyndir um frekari útfærslu í því. Ég verð að segja að mér hugnast þessar hugmyndir vel, en ég hjó líka eftir því í svari hæstv. ráðherra hversu viðamikið verkefnið er. Það var áhugavert innlegg hv. þm. Jóns Þórs Ólafssonar og áhugaverð skýrslan sem KPMG gerði á sínum tíma. Það sýnir svo vel hvað ferðaþjónustan er víðtæk atvinnugrein og hvað hún snertir marga þætti, eins og hæstv. ráðherra kom inn á.

Það er ljóst að við þurfum að ræða þessi mál frekar og fá frekari lausn í þeim. Ég aðhyllist mjög aðgangsstýringu inn á ákveðna ferðamannastaði. Í ljósi þeirrar umræðu sem verið hefur í fjölmiðlum undanfarið er ljóst (Forseti hringir.) að við þurfum að fara að taka þá umræðu lengra og taka ákvarðanir sem lúta að því að stýra aðgangi inn á viðkvæma ferðamannastaði.