148. löggjafarþing — 45. fundur,  9. apr. 2018.

einkaleyfi og nýsköpunarvirkni.

356. mál
[17:42]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Hér er um mikilvægt mál að ræða sem varðar samspil einkaleyfa og nýsköpunarvirkni. Í fyrirspurn þingmannsins eru þrjár spurningar og mun ég svara þeim hér.

Í spurningu eitt er spurt um hvort ráðherra hafi áhyggjur af þeirri þróun að Íslendingar eigi engin einkaleyfi á sviði jarðvarmavinnslu á meðan erlendir aðilar hafa skráð töluvert af slíkum einkaleyfum hér á landi.

Því er til að svara að gríðarlegur vöxtur hefur verið í fjölda einkaleyfa á sviði jarðvarmavinnslu í heiminum á síðustu árum. Erlend fyrirtæki, bæði í einkaeigu og í almannaeigu, hafa í auknum mæli sótt um einkaleyfi á þessu sviði hér á landi. Á sama tíma hafa íslensk fyrirtæki ekki farið þá leið að sækja um einkaleyfi á uppfinningum á sviði jarðvarma, hvorki hér á landi né á alþjóðlegum vettvangi.

Sem svar við spurningunni er það skoðun mín að þessu ástandi fylgi ákveðin ógn. Þar af leiðandi er full ástæða til að vera á varðbergi.

Skráð hugverkaréttindi annarra hér á landi geta almennt séð haft áhrif á frelsi íslenskra fyrirtækja til athafna. Með því að huga að hugverkum með skipulegri og markvissri notkun einkaleyfakerfisins er hægt að minnka þessa áhættu verulega. Við þurfum að vera meðvituð um þá staðreynd að í þeirri þekkingu sem skapast hefur með rannsóknar- og þróunarstarfi á sviði jarðvarma hér á landi felast gríðarleg verðmæti. Hún hefur skapað Íslandi ákveðið samkeppnisforskot. Ef sú þekking er ekki vernduð geta aðrir aðilar hagnýtt sér afrakstur íslenskra rannsóknar- og þróunarvinnu án þess að nokkuð skili sér til Íslands.

Ég fór nýlega sérstaklega yfir þessi mál með forstjóra Einkaleyfastofu. Niðurstaða okkar er sú að enn séu til staðar gríðarleg tækifæri til að hagnýta íslenskt hugvit í jarðvarmageiranum og ein sterkasta leiðin til þess sé með markvissri verndun hugverka. Slík verndun getur skapað grundvöll fyrir nýrri tekjulind, verið hvati fyrir aukið fjármagn í rannsóknar- og þróunarvinnu og verið mikilvægur hlekkur í útflutningi á íslensku hugviti, líkt og hv. þingmaður kom inn á.

Í spurningu tvö er spurt að því hvort ríkisstjórnin eða ráðherra hafi það að markmiði að fjölga íslenskum einkaleyfum til að auka enn frekar samkeppnishæfni landsins. Stutta svarið við þeirri spurningu er afdráttarlaust já. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er mikil áhersla lögð á að nýsköpun og hagnýting hugvits sé ein mikilvægasta forsendan fyrir fjölbreyttu atvinnulífi og sterkri samkeppnisstöðu. Á næstu mánuðum munum við móta heildstæða nýsköpunarstefnu fyrir Ísland í nánu samráði við atvinnulífið og vísindasamfélagið og er undirbúningur þeirrar vinnu þegar hafinn. Í þeirri vinnu sem fram undan er mun sérstök áhersla verða lögð á það markmið að fjölga íslenskum einkaleyfum til að auka enn frekar á samkeppnishæfni landsins.

Einnig er rétt að nefna í þessu samhengi að árið 2016 gáfu stjórnvöld út sérstaka hugverkastefnu. Er unnið eftir henni með það að markmiði að stefna að hugverkadrifnu Íslandi árið 2022. Núverandi staða mála er okkur hvatning til að gera enn betur og setja aukinn kraft í þennan málaflokk.

Í spurningu þrjú er spurt um hvaða aðferðum hið opinbera beiti til að hvetja til þess að íslenskir vísindamenn og hugverkamenn verndi hugverk sín með því að sækja um einkaleyfi.

Svarið við því er að hið opinbera hefur ýmis verkfæri til að styðja við fjölgun íslenskra einkaleyfa á fjölbreyttan hátt. Verður það nánar skoðað og útfært í vinnu við gerð áðurnefndrar nýsköpunarstefnu. Ein aðferð væri t.d. að gera kröfu um virka hugverkavernd í stuðningskerfi nýsköpunar og í gegnum samkeppnissjóði. Það ætti að vera kappsmál að tryggja sem besta nýtingu opinberra fjármuna sem veittir eru til samkeppnissjóða með því að gera kröfu um að kannaðir séu möguleikar til skráningar eða meðvitaðrar verndar á hugverkaréttindum. Þetta snýst nefnilega allt um að taka upplýsta ákvörðun, að fara yfir það sem maður er með í höndunum og sjá að hvaða niðurstöðu maður kemst, að maður sé alla vega upplýstur.

Nú þegar eru styrkumsækjendur í sumum tilfellum spurðir um hugverkastefnu sína. Styrkir mættu í auknum mæli taka mið af mögulegri vernd og hagnýtingu hugverka. Sem dæmi má nefna að Tækniþróunarsjóður veitir sérstaka einkaleyfastyrki. En þeir ná aðeins yfir hluta af einkaleyfaferlinu og hefur verið lagt til að þeir styrkir verði efldir. Einnig ber að nefna að endurgreiðslur á rannsóknar- og þróunarkostnaði geta náð yfir ákveðinn kostnað við einkaleyfaferlið og þannig virkað sem hvatning til þess að fara af stað með einkaleyfaumsókn.

Rannsóknir sýna að einkaleyfi hvetja til nýsköpunar og að það er samhengi milli fjölda einkaleyfa og fjárfestingar í rannsóknar- og þróunarstarfi. Þá hefur verið sýnt fram á að fyrirtæki sem eiga og beita hugverkum hagnast meira, eru með fleiri (Forseti hringir.) starfsmenn og greiða að jafnaði hærri laun en önnur fyrirtæki.

Það er því til mikils að vinna að taka hugverkavernd föstum tökum hér á landi, auka þekkingu og skilning atvinnulífsins á möguleikunum sem felast í hugverkavernd og hvetja til aukinnar nýtingar á þessu möguleikum til að vernda samkeppnisforskot. Ég tel að miklir hagsmunir séu í húfi og ákveðin vitundarvakning þurfi að eiga sér stað, en ég held líka að hún sé mögulega að eiga sér stað nú þegar.

Ég hef, eins og áður segir, þegar átt fund með forstjóra Einkaleyfastofu þar sem við höfum farið yfir þessi mál og hvaða leiðir séu mögulega færar til úrbóta. Það er margt sem kemur hér til skoðunar. Ég vil að endingu fagna því að hv. þingmaður veki athygli á þessu máli í þingsal.