148. löggjafarþing — 45. fundur,  9. apr. 2018.

lög um félagasamtök til almannaheilla.

407. mál
[17:55]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina sem lýtur að breytingum á lagaumhverfi félagasamtaka til almannaheilla. Frjáls félagasamtök gegna eins og við öll vitum miklu og mikilvægu hlutverki í samfélaginu og það er mikilvægt að hlúa vel að þessum sterka og ómissandi þræði í samfélagsgerð okkar.

Til að svara spurningu hv. þingmanns þá hef ég kynnt mér alla þessa vinnu og fundað bæði með sérfræðingum innan ráðuneytisins og fundað með samtökunum sjálfum, Almannaheill, um þetta frumvarp og frumvarpsdrög og annað. Í dag er víða að finna í lögum ákvæði sem varða einstaka þætti í starfsemi félagasamtaka til almannaheilla þótt ekki séu í gildi sérstök lög um slík samtök. Slík ákvæði er t.d. að finna í skattalögum, lögum um bókhald og firmalögum. Einnig eru í gildi lög nr. 19/1988, um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá, og lög nr. 33/1999, um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur. Síðarnefndu lögin ná yfir sjálfseignarstofnanir sem hafa sambærileg markmið og félagasamtök sem vinna að almannaheillum.

Í maí 2016 lagði þáverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra fram til kynningar á Alþingi frumvarp til laga um félagasamtök til almannaheilla. Frumvarpið byggði á vinnu nefndar sem falið var að undirbúa löggjöf um frjáls félagasamtök og sjálfseignarstofnanir sem starfa að almannaheillum. Frumvarpið frá maí 2016 er til skoðunar í ráðuneytinu áfram og við höfum að undanförnu átt fundi með forsvarsmönnum Almannaheilla um þau mál.

Að mínu mati hefur frumvarpið ýmsa kosti. Við erum sammála um markmiðin með frumvarpinu sem er að tryggja sem besta umgjörð um starfsemi félagasamtaka af þessum toga. Á það var hins vegar bent þegar frumvarpið kom fram að setning heildarlaga um félagasamtök til almannaheilla kynni að vera íþyngjandi fyrir slík félagasamtök og þá sér í lagi minni félög og grasrótarsamtök, m.a. þar sem getur reynst slíkum félögum erfitt að uppfylla formskilyrði sem fylgja slíkum sérlögum. Lagasetning sem þessi getur því verið hamlandi fyrir félagasamtök til almannaheilla og takmarkað möguleika þeirra til að ákvarða sitt innra skipulag.

Í ljósi þessa og þeirra ábendinga sem fram komu þegar frumvarpið var kynnt í maí 2016 hef ég falið starfsmönnum ráðuneytisins að skoða með hvaða hætti sé best hægt að efla og treysta starfsemi félagasamtaka til almannaheilla innan núgildandi laga. Markmiðið er eftir sem áður að tryggja sem besta umgjörð um starfsemi félagasamtaka til almannaheilla án þess að settar séu hindranir eða takmarkanir af einhverju tagi með sérlögum. Hefur sú vinna staðið yfir um nokkurt skeið og er hún unnin í góðu samráði við Almannaheill og er niðurstöðu að vænta síðar á þessu ári. Í framhaldi af því, til að svara spurningu hv. þingmanns, mun ég taka ákvörðun um það hvort leggja skuli fram frumvarp til heildarlaga um félagasamtök til almannaheilla, á kjörtímabilinu.

Í lokin er rétt að benda á að tvær af helstu tillögum nefndarinnar sem samdi frumvarpið hafa nú þegar orðið að lögum. Alþingi samþykkti fyrir rúmu ári breytingar á skattalögum sem fela það í sér að nú geta fyrirtæki styrkt almannaheillasamtök um allt að 0,75% af heildarveltu sinni og dregið þá fjárhæð frá tekjuskattsstofni. Þetta hlutfall var áður 0,5% og hækkaði því umtalsvert með þessari lagabreytingu rétt eins og nefndin hafði lagt til. Í öðru lagi var erfðafjárskattur af gjöfum til almannaheillasamtaka felldur niður sem einnig var tillaga frá nefndinni. Þetta eru mikilvæg framfaraskref sem skipta máli og við munum halda áfram að vinna á þeim nótum að finna leiðir til að skjóta traustari stoðum undir starfsemi félagasamtaka til almannaheilla.

Að lokum vil ég ítreka mikilvægi starfsemi almannaheillasamtaka og að samstarf þeirra og ráðuneytisins hefur verið og er gott og ég vænti þess að svo verði áfram.