148. löggjafarþing — 45. fundur,  9. apr. 2018.

eftirfylgni við þingsályktun nr. 22/146.

267. mál
[18:06]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég ákvað að fylgja hér eftir afgreiðslu þingsályktunartillögu sem samþykkt var fyrir tveimur þingum síðan. Fyrsti flutningsmaður var þáverandi hv. þm. Valgerður Gunnarsdóttir og snýr þingsályktunin að uppbyggingu á Hrauni í Öxnadal. Þetta er eitt af þeim málum sem týnast gjarnan þegar komið er inn í ráðuneytin. Auðvitað hefur ýmislegt gerst og kosningar og annað slíkt hafa orðið til þess að verkefnið hefur að minnsta kosti ekki komist á þann stað að við vitum af því. Tilgangur með þessari spurningu er að vita hvernig staðan er og hvort ráðherra hyggist gera eitthvað.

Fram kom á sínum tíma þegar málið var til umfjöllunar í nefndinni að það væri einn af mikilvægum þáttum gagnvart landsbyggðinni að byggja upp menningarsetur, tengja sögu og menningartengda ferðaþjónustu. Það hjálpar til við að tryggja dreifingu ferðamanna og svo auðvitað miðlun á menningararfinum til bæði innlendra og erlendra gesta.

Við þekkjum mörg þá ægifögru náttúru sem umlykur Jónasarsetur. Það er tiltölulega nálægt þéttbýli þannig að þar er hægt að halda uppi alls konar lifandi safna- og fræðslustarfi. Ég held að nefndin hafi unnið ágætlega úr þessu máli þegar hún valdi þessa leið, en breytingin var sú að taka inn umhverfis- og auðlindaráðuneytið því að málið var jú fyrst og fremst undir mennta- og menningarmálaráðuneytinu, þ.e. tillagan eins og hún var lögð fram. En það liggur fyrir að sveitarfélagið og þeir sem standa að þessu starfi geta ekki unnið áfram nema með aðkomu ríkisins. Íbúðarhúsið, sem var byggt 1933, var lagfært í kringum árið 2006. Þar var og er fræðimannsíbúð og menningarstofur. En nú er svo komið í starfinu gagnvart húsinu og rekstrinum að ekki er hægt að gera neitt frekar eða halda áfram starfinu nema einhverjar ákvarðanir og stuðningur komi frá ríkinu.

Þess vegna þótti mér mikilvægt að fylgja þessu eftir hér og heyra í ráðherra hvort ekki sé alveg öruggt að málið fái framgöngu innan ráðuneytisins. Þá má líka spyrja, í ljósi þess að málið fór til tveggja ráðuneyta eðli málsins samkvæmt þar sem þetta er friðlýst svæði, hvort samtal hafi átt sér stað á milli þessara ráðuneyta og hvort ekki sé alveg öruggt að við höldum áfram að styðja við þetta verkefni.