148. löggjafarþing — 45. fundur,  9. apr. 2018.

undanþágur frá banni við hergagnaflutningum.

343. mál
[18:18]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Herra forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. utanríkisráðherra í kjölfar fréttar og umfjöllunar Kveiks, sem var mjög þörf og mikilvæg fyrir okkur sem hér erum í þinginu, um vopnaflutninga sem voru m.a. á vegum Atlanta fyrirtækisins, íslensks fyrirtækis.

Ég vil byrja á því sérstaklega að hrósa hæstv. utanríkisráðherra fyrir mjög eindregna afstöðu hans gagnvart efnavopnaárásinni um helgina í Sýrlandi þar sem hann mótmælti henni með mjög afgerandi hætti, mér finnst það mjög til fyrirmyndar, og líka hvernig hann hefur gert það um Skripal-málið í Bretlandi þegar það kom upp. Mér finnst þetta vera eins og hlutirnir eiga að vera gerðir. Það er talað skýrt og það eru send skýr skilaboð til umheimsins. Varðandi vopnaflutninga þá höfum við Íslendingar í raun gengið gegn lögum um loftferðir, 78. gr. laga um loftferðir sem mælir fyrir um fortakslaust bann við vopnaflutningum. Þess vegna skiptir máli að við heyrum sömu skýru fyrirmælin og í þeim málum sem ég talaði um áðan, efnavopnaárásina í Sýrlandi og Skripal-málið í Bretlandi.

Mig langar að spyrja um afstöðu hæstv. ráðherra sem fer bráðum með þessi málefni en samkvæmt fréttum þá verður tilfærsla á málefninu, þ.e. umfang og umsýsla vopnaflutningaleyfa verður fært frá samgönguráðuneytinu yfir í utanríkisráðuneytið. Þess vegna er mikilvægt að fá að vita mjög skýrt og ljóst hver afstaða hæstv. utanríkisráðherra er til þessa, hvort það eigi ekki að virða algjörlega án undantekninga þá grein sem er í lögum um loftferðir sem mælir fyrir um algjört bann við hergagnaflutningum. Við erum ekki að tala um þá skilmála og þær skuldbindingar sem við þurfum að uppfylla varðandi NATO. Við vitum alveg hver þau eru. Það þýðir ekkert að bara að blanda því inn í hér, það er allt annars eðlis, það eru skuldbindingar sem við munum að sjálfsögðu uppfylla í tengslum við það samstarf og þá aðild sem við eigum að NATO.

Hitt er síðan að við þurfum að huga að öðrum flutningum. Þá hljóta íslensk yfirvöld að hafa skýra afstöðu um það að við ætlum ekki að flytja nein vopn hvaða nafni sem þau nefnast. Það verður að vera eftirfylgni með því. Það verða að vera skýr fyrirmæli af hálfu íslenskra stjórnvalda um það og ekkert humm og ha. Ég bind vonir við hæstv. ráðherra í því vegna þess að hann hefur haft skýrar skoðanir í ákveðnum málum, sumum kannski sem maður er ekki alltaf alveg sammála, en hann er ekki skoðanalaus maður og ég vil fá fram skoðun hans á því hvort ekki sé eðlilegt að á Íslandi sé skilyrðislaust og fortakslaust bann við hergagnaflutningum hvaða nafni sem þeir nefnast, að því gefnu að þeir séu ekki á vegum Atlantshafsbandalagsins.