148. löggjafarþing — 45. fundur,  9. apr. 2018.

undanþágur frá banni við hergagnaflutningum.

343. mál
[18:22]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina en vil jafnframt benda á að einmitt þetta mál hefur í tvígang fengið ítarlega reifun í utanríkismálanefnd, sem þingmaðurinn þekkir mjög vel, enda á hann sæti í nefndinni, og í fjölmiðlum þar sem afstaða mín og ríkisstjórnar hefur einnig komið fram. Þá liggur jafnframt fyrir, eins og hv. þingmaður vísaði til, að það er samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið sem veitir undanþágur frá ákvæðum loftferðalaga um bann við flutningi hergagna með íslenskum loftförum, ekki utanríkisráðuneytið. Aðkoma utanríkisráðuneytisins felst í því að veita eftir atvikum umsögn. Mjög nýlega var farið að leita til utanríkisráðuneytisins varðandi umsagnir. Lög og reglur kveða ekki á um samráð eða umsagnir af þessum toga og þannig hefur það verið um árabil. Hv. þingmaður þekkir það mjög vel, enda var það einnig þannig á þeim tíma sem hv. þingmaður átti sæti í ríkisstjórn. Á þeim tíma fóru líka fram hergagnaflutningar, m.a. fyrir tilstilli íslenskra flugrekstraraðila og voru undanþágur veittar frá lögum. Því tel ég hins vegar brýnt að breyta og hef ítrekað lýst þeirri skoðun minni að utanríkisráðuneytið taki yfir allar undanþáguveitingar.

Að því er unnið innan stjórnsýslunnar m.a. með breytingu á reglugerðum og bættu verklagi. Drög að því voru kynnt á ríkisstjórnarfundi í síðustu viku. Vinnan er með öðrum orðum langt komin og verður kynnt í utanríkismálanefnd á næstunni.

Með nýju verklagi og þeim breytingum sem unnið er að fæst meiri festa og verkferlar verða skýrari, auk þess mál af þessum toga hafa mjög augljósar utanríkispólitískar skírskotanir. Þannig hafa umsagnir utanríkisráðuneytisins tekið ríkt mið af utanríkisstefnunni, einkum mannréttinda- og mannúðarsjónarmiðum, og þess gætt að samræmi sé þar í millum. Ég hef sömuleiðis lýst þeirri skoðun minni að íslensk stjórnvöld verði að fara varlega í undanþáguveitingar varðandi flutning hergagna.

Þegar þar að kemur mun utanríkisráðuneytið einfaldlega meta hvert mál fyrir sig og horfa til þeirra viðmiða sem hið nýja verklag og reglugerðir munu tilgreina. Þar yrði m.a. horft til lagaskilyrða, alþjóðasamninga, magns og eðlis hergagna, sendanda, viðtakenda og samræmis við utanríkisstefnuna. Auðvitað munu koma upp tilvik þar sem öllum skilyrðum er fullnægt og ekkert því til fyrirstöðu að heimila undanþágu. Þá er mikilvægt að hafa í huga að hergögn geta verið af ýmsum toga og eru fjarri því að vera einungis vopn. Þess utan eru vopn mjög mismunandi. Enda er það svo að hergagnaflutningar tíðkast og eru raunar mjög algengir, m.a. á Norðurlöndunum og meðal annarra bandalags- og vinaþjóða okkar.

Við munum úr umræðunni fyrr á árinu, m.a. í utanríkismálanefnd, að mörg ríki Evrópusambandsins og Atlantshafsbandalags hafa ekki einungis flutt vopn til Sádi-Arabíu heldur einnig selt vopn þangað. Þar á meðal eru Noregur, Finnland og Svíþjóð. Norska þingið hefur sérstaklega ályktað að ekki skuli hætt að flytja vopn til Sádi-Arabíu.

Í okkar tilfelli var um að ræða íslenskan flugrekanda, ekki íslensk stjórnvöld, sem flutti og seldi vopn til Sádi-Arabíu. Ég er augljóslega ekki að mæla því bót og hef margoft tjáð mig í þá veru, en hér verður að gera skýran greinarmun á og gæta lágmarkshófs í umræðunni.

Þá vil ég líka nefna að algert og fortakslaust bann við hergagnaflutningum kynni að stangast á við skuldbindingar Íslands í alþjóðlegri samvinnu á sviði varnar- og öryggismála. En meginregla loftferðalaga er bann við hergagnaflutningum og því stendur ekki til að breyta.

Ef þessi mál fara yfir til ráðuneytisins, sem margt bendir til, mun utanríkisráðuneytið ávallt fylgja varfærninálgun við undanþágubeiðnum og gæta þess að öll skilyrði séu uppfyllt ef slíkar undanþágur eru veittar, m.a. með hliðsjón af áherslum Íslands í utanríkismálum.