148. löggjafarþing — 45. fundur,  9. apr. 2018.

undanþágur frá banni við hergagnaflutningum.

343. mál
[18:28]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir að setja þessa fyrirspurn hér á dagskrá og þar með þetta mál. Ég þakka líka hæstv. ráðherra fyrir svör hans. Sérstaklega vil ég fagna því, sem kom fram í máli ráðherra, að upplýsinga sé að vænta frá hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra sem ber ábyrgð á þessum lögum um loftferðir og þar af leiðandi undanþágum, ef einhverjar eru veittar, á þeim lögum.

Ég vil ítreka það, sem fram hefur komið hér í þessari umræðu, að okkur var öllum verulega brugðið við þær fréttir sem fram komu í fréttaþættinum Kveik um flutning íslensks fyrirtækis á hergögnum til Sádi-Arabíu. Mörg okkar vilja leiða líkum að því að þau vopn hafi þá lent inni á því hræðilega átakasvæði sem þarna er og okkur er öllum mjög brugðið. Ég held að það sé mjög hollt og gott fyrir okkur að ræða hvort þetta bann geti verið algilt og að aldrei eigi að veita undanþágur frá því. En ég fagna því líka, sem ráðherra segir, að verið sé að leggja til breytingar á verkferlum þannig að yfirsýn verði skýrari í utanríkisráðuneytinu.