148. löggjafarþing — 45. fundur,  9. apr. 2018.

undanþágur frá banni við hergagnaflutningum.

343. mál
[18:32]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Það er einhver misskilningur í gangi þegar sagt er að þetta sé að hluta til hjá samgönguráðuneytinu. Menn þekkja alveg forsetaúrskurðinn, þetta er hjá samgönguráðuneytinu. Og ef menn halda að utanríkisráðuneytið sé eitthvert eftirlitsráðuneyti í alþjóðlegum skuldbindingum í öllum ráðuneytum í Stjórnarráðinu þá eru það nýjar fréttir. Ég skal þá gangast við því að ég hafði ekki hugmynd um að það væri hlutverk utanríkisráðuneytisins að hafa eftirlit með öllum öðrum ráðuneytum (Gripið fram í.) þegar kemur að alþjóðlegum skuldbindingum.

Til að setja þetta í samhengi skipta þeir alþjóðasamningar sem við höfum gert þúsundum. Ég nefni EES-samninginn; þær skuldbindingar sem við höfum gengist undir þar, gerðirnar þar, skipta þúsundum. Ég man ekki hvort þær eru tíu þúsund. Langminnst af því er á borði utanríksráðuneytisins. Þess vegna skildi ég ekki alveg upplegg hv. þingmanns. Þetta er mjög einfalt. Við erum auðvitað alltaf að vinna innan alþjóðlegra skuldbindinga og þegar þessi mál koma fram eru þau kynnt í hv. utanríkismálanefnd. Það er mjög mikilvægt að allir séu meðvitaðir um eftir hvaða reglum og hvaða viðmiðum er farið. Það stendur ekkert annað til.

Ég segi það skýrt og hef sagt það áður að við eigum að fara varlega í að veita undanþágur. Eðli málsins samkvæmt þurfum við að fara eftir þeim alþjóðlegu skuldbindingum og þeim samningum sem við höfum gert. Ég held að það sé mjög mikilvægt að hv. utanríkismálanefnd fari vel yfir þetta mál þegar drög að verklagsreglum og viðmiðum koma fram þannig að allir séu á sama stað hvað það varðar.

Ég get ekki heyrt neinn ágreining hjá þeim sem hér hafa talað hvað það varðar að menn vilji fara varlega í þessi mál, fara varlega í að veita undanþágur. Þá er það næsta skref að setjast yfir það hvernig við getum haft þau viðmið og þær verklagsreglur eins skýrar og mögulegt er, þannig að vafaatriði séu eins fá og hægt er. Þetta er eitthvað sem við þurfum að ræða; ég, ef fer sem horfir, við hv. utanríkismálanefnd. Því skýrari sem reglur og viðmið eru því betra.