148. löggjafarþing — 45. fundur,  9. apr. 2018.

frumvarp til laga um breytingar á almennum hegningarlögum um bann við umskurði drengja.

413. mál
[18:34]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birgir Þórarinsson) (M):

Herra forseti. Fyrir þinginu liggur frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, bann við umskurði drengja. Það sem ég vil ræða hér sérstaklega við hæstv. utanríkisráðherra á þessum tímapunkti eru viðbrögð erlendis frá vegna frumvarpsins og íslenskir hagsmunir tengdir því.

Frumvarpið gengur út á það að banna umskurð drengja og að hver sá sem framkvæmir slíka aðgerð skuli sæta fangelsi allt að sex árum. Frumvarp þetta er mjög umdeilt og hefur fengið mikla athygli hér heima og erlendis. Í mörgum tilfellum hefur sú athygli verið neikvæð. Þannig hefur það verið nefnt í umsögn frá kirknaráði Evrópu og kaþólska biskuparáðinu að Ísland myndi fá á sig blæ útlendingaandúðar og að gyðingar og múslimar væru ekki velkomnir til Íslands.

Umskurður drengja hefur sterk tengsl við trúarbrögð gyðinga og íslam. Gyðingar og múslimar um allan heim eru umskornir og er um að ræða rótgróna hefð í mörgum samfélögum. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin gaf út skýrslu árið 2010 þar sem umskurði ungra drengja eða kornabarna er lýst sem einni af algengustu og elstu skurðaðgerðum í heimi og er talið að allt að þriðjungur karla í heiminum sé umskorinn. Verði frumvarpið samþykkt er Ísland eina landið í heiminum þar sem umskurður drengja yrði bannaður og gerður refsiverður sem nemur allt að sex ára fangelsisvist.

Í ljósi þessa og þeirra neikvæðu umsagna sem borist hafa erlendis frá um frumvarpið er nauðsynlegt að umræða fari fram hér á Alþingi um það hvaða áhrif frumvarpið, verði það að lögum, geti haft á samskipti Íslands við erlend ríki þar sem rík hefð er fyrir umskurði drengja eins og í Ísrael og ríkjum íslam, en íslam er næstfjölmennustu trúarbrögð í heimi. Auk þess má nefna að um helmingur karlmanna í Bandaríkjunum er umskorinn. Einnig er nauðsynlegt að ræða hvort frumvarpið, verði það að lögum, geti haft áhrif á utanríkisverslun Íslands, viðskiptahagsmuni og samkeppnisfærni okkar erlendis, komu erlendra ferðamanna til landsins og móttöku flóttamanna.

Það sem ég vil ræða sérstaklega hér við hæstv. utanríkisráðherra er hvort ísraelsk stjórnvöld hafi sett sig í samband við utanríkisráðuneytið vegna frumvarpsins. Ef svo er hver voru skilaboð ísraelskra stjórnvalda? Getur málið haft áhrif á samskipti Íslands og Ísraels? Einnig er mikilvægt að fá vitneskju um það hvort önnur ríki hafa haft samband við ráðuneytið vegna málsins sem og trúfélög, hópar eða einstaklingar erlendis frá og hver skilaboð þeirra hafi verið.

Síðast en ekki síst er mikilvægt að fá það fram hvort ráðherra telji að málið geti haft áhrif á viðskiptahagsmuni íslenska ríkisins og íslenskra lögaðila og þá með hvaða hætti.