148. löggjafarþing — 45. fundur,  9. apr. 2018.

frumvarp til laga um breytingar á almennum hegningarlögum um bann við umskurði drengja.

413. mál
[18:38]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrirspyrjanda fyrir að vekja athygli á þessu máli sem á sér margar hliðar og hefur vakið athygli út fyrir landsteinana. Spurt er um viðbrögð ísraelskra stjórnvalda, annarra ríkja og samtaka, vegna umrædds frumvarps og áhrif á hagsmuni Íslands. Þingmálið hefur vakið þó nokkra athygli, bæði í Evrópu og Norður-Ameríku og hefur verið fjallað um málið í víðlesnum fjölmiðlum. Viðbrögðin hafa verið sterk, en hófstillt. Fulltrúar stórra og virtra gyðingasamtaka og raunar annarra trúarhópa hafa komið á fund sendiherra Íslands í Danmörku, Þýskalandi, Noregi, Frakklandi, Belgíu, Bretlandi og Bandaríkjunum. Ekki hefur verið hvatt til herferðar gegn íslenskum stjórnvöldum eins og við höfum séð í öðrum hitamálum og bein viðbrögð frá almenningi í þessum ríkjum ekki verið mikil.

Öllum sem haft hafa samband við utanríkisþjónustuna í tengslum við þetta mál hefur verið bent á að hafa samband við Alþingi beint og sést á umfangi erlendra umsagna að margir hafa fylgt málinu eftir með þeim hætti. Erindin eru margs konar, en flest eiga þau það sammerkt að vera gagnrýnin á frumvarpið sem þykir stangast á við trúfrelsi og vera til þess fallið að ala á mismunun gegn ákveðnum trúar- og menningarhópum.

Á fundi mínum með mannréttindastjóra Sameinuðu þjóðanna í febrúar síðastliðnum lagði hann sérstaklega áherslu á mikilvægi þess að standa vörð um trúfrelsi og vinna gegn gyðingahatri og múslimahatri sem því miður hefur farið vaxandi á Vesturlöndum undanfarin misseri. Íslensk stjórnvöld vilja að Ísland verði áfram í hópi forysturíkja þegar kemur að mannréttindum og við verðum að mínu áliti að skoða þetta mál í því ljósi. Ísland er ekki eyland þrátt fyrir að við séum eyja. Verði frumvarpið óbreytt að lögum gæti það haft veruleg áhrif í öðrum ríkjum sem gæti ýtt undir fordóma og mismunun. Við megum heldur ekki gleyma því að þrátt fyrir að okkar saga sé að mörgu leyti lituð af einsleitni þegar kemur að trú og uppruna þá geymir hún þætti sem við erum engan veginn stolt af, eins og þegar gyðingar voru sendir héðan nánast út í opinn dauðann í aðdraganda síðari heimsstyrjaldarinnar, þótt aðrir hafi svo komið þeim til bjargar.

Ljóst er að umskurður á drengjum á sér mjög djúpar rætur í trúar- og menningarlífi gyðinga og múslima, en einnig óháð trú líkt og í Bandaríkjunum og mörgum ríkjum Afríku. Hér er því ekki um fámenna jaðarhópa að ræða, heldur hóp sem gæti talið um þriðjung karlmanna.

Af þeim sökum, verði frumvarpið óbreytt að lögum, mætti búast við harðari viðbrögðum en þau hafa verið hingað til og ekki útilokað að Ísland verði sett í neikvætt ljós á meðal fjölmargra aðila. Slíkt gæti haft áhrif á íslenska hagsmuni til skemmri tíma hið minnsta þótt ekki sé einfalt að meta hver áhrifin yrðu á einstaka viðskiptahagsmuni. Þetta er enn fremur mál sem ekki hefur mjög mikla eiginlega þýðingu hér á landi. Því skýtur svolítið skökku við að löggjafinn hér taki skref sem aðrir hafa forðast að taka af gildum ástæðum. Ég hef hins vegar fullan skilning á markmiðum frumvarpsins og tilgangi þess með réttindi barnsins að leiðarljósi, en er þeirrar skoðunar að stíga eigi varlega til jarðar.

Hvað varðar viðbrögð ísraelskra stjórnvalda þá kom sendiherra Ísraels gagnvart Íslandi með aðsetur í Noregi hingað til lands í mars síðastliðnum og hitti fyrir þingmenn og ráðherra. Erindi hans var m.a. að ræða umrætt þingmannafrumvarp. Sjálfur hitti ég sendiherrann og við ræddum þetta mál ásamt öðru. Slíkt samtal er að sjálfsögðu bundið trúnaði, en sendiherrann gaf færi á sér í fjölmiðlum þar sem hann kom afstöðu stjórnvalda í Ísrael á framfæri. Sendiherrann lét ekki í það skína í opinberum ummælum sínum eða á fundi með mér að málið sem slíkt hefði neikvæð áhrif á samskipti Íslands og Ísraels. Þau samskipti eru með ágætum og hafa aukist á umliðnum árum, enda vita ísraelsk stjórnvöld að Ísland er líkt og Ísrael rótgróið lýðræðisríki þar sem réttur þingmanna til að leggja fram þingmál er hluti af lýðræðinu.

Hins vegar er ekkert launungarmál og sendiherrann var alveg skýr með það að ísraelskum stjórnvöldum hugnast ekki frumvarpið í óbreyttri mynd. Það þarf ekki að koma á óvart.

Einstaka önnur ríki í Evrópu og Norður-Ameríku hafa sýnt þingmálinu áhuga og spurst fyrir um það án þess að leggja sérstakan dóm þar á eða tilgreina opinbera afstöðu.

Ég vil að lokum ítreka að ég hef fullan skilning á markmiðum frumvarpsins og veit sem er að þeir sem flytja frumvarpið eru eingöngu með góðan ásetning. Í mínum huga snýst þetta um að finna jafnvægið og stíga skref í þessa átt líkt og Norðurlöndin hafa gert. Þar vísa ég jafnframt í umsögn utanríkisráðuneytisins sem barst þinginu skömmu fyrir páska.