148. löggjafarþing — 45. fundur,  9. apr. 2018.

frumvarp til laga um breytingar á almennum hegningarlögum um bann við umskurði drengja.

413. mál
[18:42]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir að leggja fram þessa fyrirspurn og hæstv. ráðherra fyrir svör hans. Það er í rauninni mjög áhugavert í því ljósi að taka þessa umræðu hér við hæstv. utanríkisráðherra, en við höfum varið töluverðum tíma í að ræða frumvarpið sem slíkt í þessum þingsal. Ég held að ég hafi verið viðstödd meiri hlutann af þeirri umræðu og tók þátt í henni. Mér þykir líka mikilvægt að það komi fram að fjöldi umsagna hefur borist, og það er alveg rétt að það er örugglega sögulegur fjöldi erlendra umsagna sem hefur borist um þetta þingmannamál, en þær eru líka margar hverjar jákvæðar og mjög margir hafa haft samband og fagnað því að verið sé að taka þessa umræðu á Alþingi Íslendinga.

Ég er ein af þeim sem segjast hafa fullan skilning á markmiði frumvarpsins. Ég hef líka sagt að fara þurfi vel yfir það og umræðan þurfi að fá að þroskast. Ég segi fyrir mitt leyti að ég er stolt af því að tilheyra þjóðkjörnu þingi á Íslandi sem þorir að taka umræðu um mál sem eru umdeild. (Forseti hringir.) Ég held að við eigum hvergi að hvika frá þeirri umræðu. En eins og hér hefur komið fram þá getur vel verið að málið þurfi að þroskast enn frekar í umræðunni, en ég held að við séum flest sammála um inntak (Forseti hringir.) málsins, þ.e. rétt barnsins.