148. löggjafarþing — 45. fundur,  9. apr. 2018.

frumvarp til laga um breytingar á almennum hegningarlögum um bann við umskurði drengja.

413. mál
[18:45]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Þetta er áhugaverð fyrirspurn fyrir þær sakir að málið snýst um réttindi barnsins, númer eitt, tvö og þrjú en hér er verið að færa umræðuna inn á þessa viðskiptahagsmuni og nota þá takmörkuðu heimild eða þá auðlind sem við höfum, sem er þessar sérstöku umræður, til að ræða sérstaklega við utanríkisráðherra um viðskiptahagsmuni í þessu einstaka máli.

Ég vil þá kannski spyrja hæstv. ráðherra utanríkismála, því hann talar svo afgerandi í þessu máli, og það er hægt að hlusta á það aftur og aftur, hann talar svo afgerandi fyrir þessum hagsmunum sem um er að ræða, þ.e. að það séu sterkir aðilar úti í heimi sem vilji ekki sjá þetta verða að veruleika á Íslandi: Var einhverjum þrýstingi beitt af sendiherra Ísraels á ráðherra í þessu máli? Það verður bara að koma skýrt fram. Það er mjög afgerandi hvernig ráðherra talar. Og svo tekur hann undir þetta alveg í restina: Já, og svo réttindi barnsins. Nei, þetta snýst númer eitt, tvö og þrjú um réttindi barnsins. Við skulum ekki vera að blanda viðskiptahagsmunum Íslands inn í það.