148. löggjafarþing — 45. fundur,  9. apr. 2018.

frumvarp til laga um breytingar á almennum hegningarlögum um bann við umskurði drengja.

413. mál
[18:48]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birgir Þórarinsson) (M):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir mjög greinargóð svör og góða yfirferð á málinu. Ég er þeirrar skoðunar að horfa verði á allar hliðar þess.

Mér fannst athyglisvert það sem ráðherrann sagði, að hann hefði átt samtöl við mannréttindastjóra Sameinuðu þjóðanna sem hafi lagt ríka áherslu á að vinna gegn fordómum í garð múslima og gyðinga og að sú skoðun sem kemur þar fram að verði frumvarpið samþykkt geti það haft veruleg neikvæð áhrif í þeim efnum og ýtt undir fordóma. Verði það samþykkt megi búast við harðari viðbrögðum en hafi verið á þessu stigi málsins.

Í mínum huga er mjög mikilvægt að það hafi komið fram hér í þingsal í tengslum við þetta mál, því að það er nú einu sinni þannig í alþjóðasamskiptum að menn sjá ekki fyrir sér hvernig hlutirnir geta þróast. Þeir geta þróast mjög hratt á skömmum tíma, einnig í neikvæða átt í sumum tilfellum. Við sáum hvað sem gerðist hér þegar Reykjavíkurborg samþykkti viðskiptabann á Ísrael, þá olli það miklum taugatitringi og borgarfulltrúar voru á harðahlaupum undan þeirri ályktun. Málið var allt hið vandræðalegasta og erfitt fyrir okkur.

Ég vil líka þakka fyrir það sem ráðherra sagði og kom hér fram, og gott að það komi fram, að það skýtur skökku við að Ísland eigi að skapa sér einhverja sérstöðu í þessum efnum. Eigum við að vera einhverjir krossfarar á erlendum vettvangi í þessu máli? Siðferðispostular og (Forseti hringir.) boðberar? Þjóð sem er nýkomin út úr efnahagslegu hruni? Ég tel svo ekki vera.