148. löggjafarþing — 45. fundur,  9. apr. 2018.

frumvarp til laga um breytingar á almennum hegningarlögum um bann við umskurði drengja.

413. mál
[18:50]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Nú er það svo að hv. þingmaður spyr mig spurninga og mér ber sem ráðherra að upplýsa og það er það sem ég geri.

Varðandi spurningu hv. þm. Jóns Þórs Ólafssonar, sem mér fannst nokkuð sérstök og upplegg hans um hvort sendiherra Ísraels eða einhverjir aðrir sendiherrar hafi beitt mig þrýstingi, þá er svarið nei, alveg skýrt nei. Algjörlega skýrt nei. Það sem ég fór hins vegar yfir eru viðbrögðin sem utanríkisþjónustan hefur fengið eftir að þetta mál kom fram. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður hafi viljað að ég hefði þagað yfir því. (Gripið fram í: … tengist gyðingahatri á Íslandi …)

Nú þarf ekkert, virðulegi forseti, annað en að fylgjast með umfjöllun í íslenskum fjölmiðlum að fram hefur komið að aðilar hafa haft áhyggjur af því að ef þetta mál næði fram að ganga þá væri það vatn á myllu öfgaafla. Það var frétt um það í Ríkisútvarpinu nokkrum vikum seinna hvað öfgaöfl varðar sem ala á gyðinga- og múslimahatri. Ég treysti því að hv. þingnefnd og þingið fari mjög vel yfir málið í því samhengi öllu saman, því að eins og ég nefndi; Ísland er ekki eyland. Það sem við gerum hefur áhrif. Þetta snýst ekki um viðskiptahagsmuni. Þetta snýst um það sem aðrir telja, með réttu eða röngu, trúfrelsi og mannréttindi. Og tekið er eftir því sem við gerum. Þetta mál hefur fengið mikla athygli.

Ég hvet því hv. þingmenn að skoða málið vel og fara yfir það málefnalega, því að þannig er málið vaxið hvort sem okkur líkar betur eða verr. Ef ég er spurður hér í þinginu þá reyni ég að svara sem best og skilmerkilegast. Það gerði ég í þessu tilfelli og hef ekki verið beittur neinum þrýstingi frá neinum aðila. En hins vegar, eins og kom fram í svari mínu, hefur verið talað bæði við mig og aðra út af þessu máli. Ég tel að ég hafi komið þeim upplýsingum skilmerkilega frá mér við þingheim og þjóð.