148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

störf þingsins.

[13:55]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Forseti. Mig langar að gera að umtalsefni það sem gerðist á mánudagsmorgun fyrir rúmri viku þegar sex farþegaþotur Icelandair þurftu að lenda á Akureyrarflugvelli og Egilsstaðaflugvelli, gátu ekki lent í Keflavík, og benda á að fyrir 30 árum, þegar núverandi flugkerfi Icelandair hóf starfsemi, árið 1989, voru þetta sjö þotur. Árið 2010 voru þær orðnar 16 til og frá landinu, í fyrra voru þær 47, 57 á þessu ári og það má reikna með að á næsta ári verði þær orðnar 70.

Flugflotinn hefur tífaldast á þessu 30 ára tímabili. Á sama tíma hafa innviðir varaflugvalla ekki byggst upp og þetta er hinn efnahagslegi grundvöllur samfélags okkar sem hefur byggst upp hér á undanförnum árum, hann tengist þessari starfsemi, en á sama tíma hefur starfsemin á jörðu niðri, innviðirnir, ekki byggst upp.

Formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna lét hafa eftir sér, eftir það sem gerðist á mánudag í síðustu viku, að háskalegt ástand hefði skapast. Því hef ég lagt það til í fjölmiðlum að íslensk samgönguyfirvöld og íslenskir flugrekstraraðilar taki sig til í að koma upp dráttarbílum á varaflugvöllunum þannig að hægt sé að raða vélum þéttar upp. Það yrði fyrsta vers í þessu máli og það er það minnsta sem hægt er að gera. Með nýjum tækjum kostar þetta 20–30 milljónir á hvorum velli en með þessum hætti er hægt að raða fjórum, fimm farþegaþotum til viðbótar við það sem komið er. Það sem er nefnilega að breytast er að kerfið er að verða svo stórt að á morgnana og í kringum þessa tengitíma koma 20–25 þotur á sömu mínútunum inn í Keflavík, en við höfum algjörlega gleymt að byggja upp innviðina (Forseti hringir.) á bak við varaflugvellina og tryggja heildarkerfi í flugrekstrinum.