148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

dagskrá fundarins.

[14:11]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég tek undir gagnrýni kollega minna sem hafa komið hingað upp, þetta er óásættanlegt. Ekki er hægt að ætlast til þess að við getum sett okkur inn í öll þessi mál með svona stuttum fyrirvara. Það er óþolandi að þurfa að vinna í umhverfi þar sem við fáum ekki að vita hvað til stendur að fjalla um fyrr en kvöldið áður. Þetta snýr ekki bara að þingmönnum og okkar vinnu, heldur líka almenningi, fólki í þjóðfélaginu sem vill geta fylgst með og haft áhrif og komið inn í umræðuna. Þetta þarf að liggja fyrir með meiri fyrirvara svo að þessum málum sé ekki dembt inn öllum á sama tíma.

Ég kalla eftir því að þetta verði endurskoðað upp á framtíðina að gera, að við reynum að færa okkur frá þessu. Ég veit að þetta hefur orðið einhvers konar venja, einhver hefð í þinginu að vinna svona. Stundum er ekkert að gera og stundum er allt of mikið að gera. En það hlýtur að vera hægt að breyta þessu. Við hljótum að geta dreift álaginu betur yfir tímabilið.