148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

dagskrá fundarins.

[14:34]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þingmönnum þegar kemur að umræðu um það að mál eiga að koma fyrr fram. Frá því að ég byrjaði á þingi hef ég oft staðið hér og rætt þessi mál af því að því miður virðumst við endurtaka okkur hvað þetta varðar, sama hverjir sitja á valdastólum. Ég hef brýnt mína ráðherra mjög til þess að leggja málin fyrr fram. Ég hef líka sagt að mér hafi fundist málaskráin of löng miðað við stutt þing og fólk ætla sér of mikið. Þótt við viljum breyta hér er það samt þannig að við erum með stórt kerfi á bak við okkur sem breytist því miður allt of hægt og okkur gengur illa að eiga við. Bara til að halda því til haga sagði forseti þingsins á fundi með þingflokksformönnum að hann gerði ekki endilega ráð fyrir að málin sem yrðu sett á dagskrá dagsins í dag kláruðust.

Af því tilefni lagði hann til að á mánudaginn yrði langur þingfundur þar sem þau mál sem út af stæðu kæmu á dagskrána. Það breytir því þó ekki (Forseti hringir.) að við eigum að hafa betri tíma til að búa okkur undir málin en verið hefur. Þetta var uppleggið og ég tek undir það líka að auðvitað gætum við verið duglegri að spyrja. Eru eitt mál, þrjú mál, fimm mál eða hversu mörg mál eru frá hverjum ráðherra?

[Háreysti á þingpöllum.]

(Forseti (ÞorS): Forseti biður um þögn.)